Fréttir

Flott minniboltamót í Víkinni

Körfubolti | 07.05.2015
Myndarlegur minniboltahópur í mótslok
Myndarlegur minniboltahópur í mótslok
1 af 2

Ríflega 30 börn sóttu minniboltamótið sem KFÍ stóð fyrir í íþróttahúsinu í Bolungarvík á laugardaginn var. Mótið var ætlað börnum í 1.-4. bekk og markaði það lok laugardagsæfinganna sem KFÍ hefur boðið upp á í Bolungarvík í vetur. Mjög góð aðsókn hefur verið að æfingunum en þær voru tvískiptar, yngri hópur og eldri hópur. Pance Ilievski og Florijan Jovanov, leikmenn meistaraflokks karla, hafa haldið utan um æfingarnar í vetur.

 

Pance stýrðu mótinu með miklum ágætum með dyggum stuðningi Birgis Arnar Birgissonar, þjálfara meistaraflokks karla. Keppt var í yngri og eldri hópum stúlkna en í sameinuðum liðum drengja. Einnig var keppt í Stinger og fóru fjórir iðkendur með sigur af hólmi, tveir strákar og tvær stelpur, og fengu þau flotta körfubolta að gjöf. Í mótslok fengu allir þátttakendur verðlaunapening og KFÍ tattú ásamt smá glaðningi. Athygli vekur að stelpur voru í talsverðum meirihluta á mótinu og er það í takti við aðsókn í æfingahópa yngri flokka, þar sem stelpur og strákar eru í jöfnum hlutföllum.

 

Við hlökkum til að taka á móti þessum hressu krökkum á æfingar félagsins í haust. Vera kann að þetta mót hafi verið það síðasta í sögunni þar sem verðlaun eru afhent í nafni KFÍ en eins og flestir vita standa yfir þreifingar um mögulega sameiningu nokkurra íþróttafélaga í eitt stórt og öflugt félag, en KFÍ hefur verið með í þeim viðræðum frá upphafi.

Deila