Fréttir

Flottur sigur stelpnanna á Tindastóli

Körfubolti | 01.02.2015
Lið KFÍ sem lagði Tindastól þann 31. janúar í 1. deild kvenna.
Lið KFÍ sem lagði Tindastól þann 31. janúar í 1. deild kvenna.

Kvennalið KFÍ vann góðan sigur á liði Tindastóls í gær, laugardaginn 31. janúar, í 1. deild kvenna á heimavelli. Leiknum lauk með 25 stiga sigri 70 – 45. Með sigrinum tryggði KFÍ stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar.

 

Segja má að KFÍ hafi gert út um leikinn strax í fyrsta fjórðungi en KFÍ stelpur hófu leik af miklum krafti, vörðust vel auk þess sem sóknarleikurinn gekk vel. Gestirnir byrjuð á að skora fyrstu stigin en eftir að Eva Margrét jafnaði leikinn í 4-4 á þriðju mínútu var ekki aftur snúið og allt gekk upp hjá heimastúlkum á meðan bókstaflega ekkert gekk upp hjá gestunum. Leikhlutanum lauk með 25 stigum KFÍ gegn 5 stigum Tindastóls.

 

Gestirnir komust betur inn í leikinn í öðrum leikhluta og náðu að þétta vörnina en KFÍ stúlkur héldu í við þær og hleyptu þeim ekki nær sér. Mestu munaði um að KFÍ spilaði áfram góða vörn á bandarískan leikmann Tindastóls, Tikeyiah Ann Johnson. KFÍ stelpur voru alltaf tilbúnar að tvídekka hana og því fékk þessi mikla skytta fá góð tækifæri sem sést kannski best á því að í fyrri hálfleik hitti hún aðeins úr einu af fimm þriggja stiga skotum sínum og skoraði aðeins 4 stig. Staðan í hálfleik var því 36 – 16 KFÍ stúlkum í vil.

 

Leikurinn breyttist talsvert í síðari hálfleik og greinilegt var að Tindastóls stúlkur lögðu upp með að keyra meira að körfunni. Þetta lukkaðist vel en þó voru KFÍ stúlkur alltaf skrefinu á undan og gáfu Tindastóls stúlkum aldrei möguleika á að komast inn í leikinn. Leiknum lauk því með góðum sigri KFÍ 70 – 45.

 

Labrenthia Murdock átti enn einn stórleikinn í liði KFÍ en hún skoraði 32 stig, tók 6 fráköst og átti 2 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Evar Margrét var einnig drjúg skoraði 16 stig, tók 12 fráköst og átti 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Linda Marín átti góðar innkomur skoraði 9 stig, tók 9 fráköst og átti 2 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Hlín Sveinsdóttir skoraði 8 stig og tók 2 fráköst. Guðrún Edda skoraði 5 stig og tók 3 fráköst. Aðrir leikmenn komust ekki á blað í stigaskorun en allt liðið spilaði þétta og fína vörn allan leikinn og stóð sig heilt yfir vel.

 

Hjá gestunum var Tikeyiah Ann Johnson stigahæst, þrátt fyrir brösuga byrjun, með 19 stig, 4 fráköst 5 stolna bolta og eina stoðsendingu. Næst kom Linda Þórdís með 10 stig, 10 fráköst og 2 stoðsendingar. Bríet Lilja var með 7 stig, 14 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Kristín Halla var með 5 stig og Valdíst Ósk og Helena Þórdís með sitthvor 2 stigin.

 

Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ.

Deila