Fréttir

Frábær mæting á Hamraborgarmótið

Körfubolti | 01.02.2019
Yngri hópur keppenda á Hamraborgarmótinu 2019 ásamt þjálfurum, dómurum og liðsaukum.
Yngri hópur keppenda á Hamraborgarmótinu 2019 ásamt þjálfurum, dómurum og liðsaukum.
1 af 2

Um 80 börn mættu til leiks á Hamraborgarmótið, sem meistaraflokkur karla Kkd. Vestra og Hamraborg stóðu fyrir á Torfnesi á mánudag. Er þetta fjölmennasta innanfélagsmótið í körfu sem haldið hefur verið um langt skeið. Fjöldi foreldra fylgdist einnig með á hliðarlínunni. Mótið var ætlað börnum í 1.-6. bekk grunnskóla.

Yngstu krakkarnir, sem aðeins eru 6 og 7 ára, hófu keppnina og léku í fjórum liðum. Leikmenn drengjaflokks og meistaraflokks spiluðu með, einn í hverju liði, og voru tilþrifin mikil á köflum. Þjálfarar og dómarar liðanna komu einnig úr röðum elstu iðkenda félagsins, bæði stúlkna og drengja, ásamt meistaraflokki.

Eldri hópurinn var mun fjölmennari en sá yngri og liðin því fleiri í samræmi við það. Liðin háðu harðar viðureignir og ljóst að ekkert vantaði uppá keppnisskapið hjá iðkendum. 

Að móti loknu gæddu allir þátttakendur sér á dýrindis pizzum úr smiðju Hamraborgar og drykkjum í boði Nettó. Þess má einmitt geta að Hamraborgarmótið er hugsað sem góð æfing fyrir stærsta körfuboltamót landsins, Nettómótið, sem fram fer í Reykjanesbæ fyrstu helgina í mars. Kkd. Vestra mun að sjálfsögðu mæta þar með fjölda liða en löng hefð er fyrir þátttöku félagsins á mótinu, sem ætlað er iðkendum í 1.-5. bekk. 

Næstkomandi þriðjudag verður haldinn kynningarfundur fyrir þá foreldra, sem hafa áhuga á því að leyfa börnum sínum að fara á þetta landsfræga og skemmtilega mót. Fundurinn fer fram á annarri hæð íþróttahússins á Torfnesi og hefst kl. 18:00.

Deila