Fréttir

Glæsilegur sigur gegn FSu/Hrunamönnum

Körfubolti | 07.12.2014
Eva Margrét Kristjánsdóttir átti góðan leik í dag og setti 28 stig.
Eva Margrét Kristjánsdóttir átti góðan leik í dag og setti 28 stig.

Kvennalið KFÍ vann stórsigur á liði FSu/Hrunamanna í dag á Torfnesi. Þetta var öruggur sigur sem aldrei var í hættu og lauk leiknum 86-57.

 

Þótt gestirnir hafi verið fyrri til að skora með þriggja stiga körfu strax á annari mínútu tóku KFÍ stelpur í kjölfarið völdin í sínar hendur með góðum 12-0 kafla. Þegar fyrsta leikhluta lauk var staðan 23-11 KFÍ stelpum í vil. Gestirnir náðu að klóra nokkuð í bakkann byrjun annars fjórðungs og minnkuðu muninn í 25-17 einkum með góðri baráttu sem skilaði sóknarfráköstum og stigum í kjölfarið. KFÍ stelpurnar voru þó ekki á því að hleypa þeim sunnlensku inn í leikinn og settu aftur í fluggír með stolnum boltum og góðum þriggja stiga körfum. Í hálfleik var staðan því 47-28. Í þriðja fjórðungi héldu KFÍ stelpur uppteknum hætti og náðu að spila sinn leik þótt Labrenthia þjálfari hvíldi lykilleikmenn, þ.e. sig sjálfa og Evu Margréti. Það var sérstaklega ánægulegt að sjá reynsluminni leikmenn stiga upp og spila yfirvegaðan og góðan leik án lykilleikmannanna tveggja. Í loka fjórðungnum var aldrei hætta á að forskotið minnkaði og var glæsilegur sigur því staðreynd þegar flautað var til leiksloka 86-57. Góður leikur hjá stelpunum þar sem allir leikmenn lögðu sitt af mörkum.

 

Labrenthia Murdock Pearson, spilandi þjálfari KFÍ, var stigahæst með 31 sti, 7 fráköst og 7 stolna bolta. Eva Margrét átti einnig góðan leik með 28 stig, 9 fráköst og 4 stolna bolta. Alexandra Sif Herleifsdóttir var öflug inn í teygnum, setti 8 stig og tók 10 fráköst. Linda Marín Kristjánsdóttir setti einnig 8 stig og tók 2 fráköst. Reynsluboltinn Anna Soffía Sigurlaugsdóttir átti mjög góða innkomu skoraði 7 stig, tók 2 fráköst, stal boltanum 2 og gaf 2 stoðsendingar. Rósa Överby skoraði 2 stig, tók 4 fráköst, stal 2 boltum og gaf 2 stoðsendingar. Hekla Hallgrímsdóttir skoraði 2 stig og Saga Ólafsdóttir tók 5 fráköst.

 

Hjá gestunum var Nína Jenný Kristjánsdóttir stigahæst með 15 stig, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir skoraði 13 stig og Ragnheiður Björk Einarsdóttir 11. Margrét Hrund Arnarsdóttir og Karen Munda Jónsdóttir 8 stig hvor og Hrafnhildur Magnúsdóttir 2.

 

Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á heimasíðu KKÍ.

 

Næsti leikur kvennaliðs KFÍ er heimaleikur gegn Fjölni sem fer fram sunnudaginn 14. desember kl. 14:00.

Deila