Fréttir

HORFT TIL FRAMTÍÐAR

Körfubolti | 11.02.2014

Næsta laugardag, 15. febrúar kl. 10.30-14.00, efnir barna- og unglingaráð KFÍ til stefnumótunarfundar í Menntaskólanum á Ísafirði þar sem horft verður til framtíðar í yngri flokka starfi félagsins með það að markmiði að ná fram auknum gæðum í uppbyggingu og starfssemi. Gestur fundarins verður Ívar Ásgrímsson, íþróttastjóri Hauka, sem mun flytja erindi um ýmsa þætti yngri flokka starfsins, t.d. hvað þarf til að ná fram fjölgun og árangri, hæfni þjálfara og tengingu íþrótta við skólastarf. Ívar sér um faglegt starf fyrir allar deildir Hauka og er jafnframt þjálfari meistaraflokks karla í körfubolta og yfirþjálfari yngri flokka félagsins.

 

Þegar Ívar hefur lokið máli sínu verður boðið upp á súpu og brauð en því næst hefst vinna við endurskoðun á Handbók KFÍ frá árinu 2005 en um er að ræða stefnumótun sem var unnin þegar félagið varð fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Í formála hennar segir: „Handbók þessi inniheldur stefnu Unglingaráðs Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar, unnin skv. verkefni ÍSÍ um fyrirmyndarfélag/-deild. Er þetta fyrsta handbókin sem lítur dagsins ljós og verður hún í stöðugri endurnýjun.“ Er það hlutverk fundarins að endurnýja handbókina og marka stefnuna til næstu ára. Handbókina má finna inni á vefsíðu KFÍ http://kfi.is/skrar_og_skjol/skra/184/  og http://kfi.is/skrar_og_skjol/skra/185/)

 

Við hvetjum alla þá sem áhuga hafa á starfi yngri flokka KFÍ til að mæta á fundinn á laugardaginn og taka þátt í að móta framtíðarstefnu félagsins. Alltaf er rétt að staldra við og skoða hvort haldið sé í rétta átt, hvað er verið að gera vel og hvað má betur fara.

 

Dagskrá:

Kl. 10.30     Birna Lárusdóttir, formaður barna- og unglingaráðs KFÍ, setur fundinn.

Kl. 10.40     Erindi: Ívar Ásgrímsson, íþróttastjóri Hauka

Kl. 11.40     Fyrirspurnir og umræður

Kl. 12.00     Hádegismatur

Kl. 12.30     Stefnumótunarvinna, endurskoðun Handbókar KFÍ frá 2005

Kl. 13.30     Samantekt og niðurstöður

Kl. 14.00     Fundarlok

Deila