Fréttir

Haukar fóru með sigur í einum af verstu leikjum sem sögur fara af

Körfubolti | 04.11.2013
,,Ég fann hann fyrst
,,Ég fann hann fyrst" Mynd. Halldór Sveinbjörnsson/BB.is
Það leit meira út fyrir að það hefði verið ársþing múrarameistara á Ísjakanum á Ísafirði í kvöld heldur en körfuboltaleikur þegar KFÍ og Haukar mættust þar í 32 liða úrslitum Powerade bikarsins.
 
Eftir ágætan fyrsta leikhluta, þar sem KFÍ leiddi 20-19, var sagt skilið við allt sem hét góður og skemmtilegur körfubolti og við tók slík múrsteinahátíð að ef starfsmenn Ísafjarðarbæjar hefðu safnað saman öllum múrsteinunum sem bæði lið köstuðu upp þá hefðu þeir væntanlega getað reist nýtt íþróttahús og leyst á einu bretti tímaskortsvandamálið sem er í núverandi húsi. Hálfleikstölur 29-32 fyrir Hauka og þeir sem héldu að þetta gæti ekki versnað áttu eftir að verða fyrir vonbrigðum.
 
Í þriðja leikhluta tók ekki betra við og var spilamennskan orðin svo slæm hjá báðum liðum að live stattið gafst upp og drapst auk þess sem beina útsendingin frá leiknum gerði sitt besta í að hlífa fólki og fraus í tíma og ótíma.
 
Í fjórða leikhluta tóku tapaðir boltar svo við misnotuðum skotum en Haukar fóru að skrefa í nánast annarri hverri sókn á meðan Ísfirðingar hefðu ekki getað hitt breiðu hliðina á hlöðu með sendingunum sínum. Það sem skildi liðin að í loka leikhlutanum var Sigurður Þór Einarsson en hann setti niður 8 af 14 stigum sínum í honum, þar af eina 4 stiga sókn. Mest komust Haukar 10 stigum yfir, 50-60, en KFÍ náði muninum niður í 3 stig þegar 9 sekúndur voru eftir. Lengra komust þeir þó ekki því Terrence Watson ísaði leikinn af vítalínunni þegar 1 sekúnda var eftir og lokastaðan 61-66.
 
Besti maður KFÍ og leiksins var klárlega Ágúst Angatýsson en auk þess að skora 18 stig og taka 16 fráköst þá pakkaði hann Terrence Watson, þriðja stigahæsta leikmanni úrvalsdeildarinnar, svo gjörsamlega saman að sá síðarnefndi endaði líklegast með fleiri athugasemdir um áhuga einstakra leikmanna KFÍ á mæðrum sínum en stig í leiknum. Fyrir áhugasama þá skoraði hann 5 stig, öll í fjórða leikhluta.
 
Jason Smith hafði afar hægt um sig í leiknum og setti 17 stig, Mirkó Stefán bætti við 11 stigum og 14 fráköstum og gamla brýnið Pance Ilievski fann fjölina aftur og setti niður 9 stig, öll úr þristum.
 
Hjá Haukum var Sigurður Þór Einarsson bestur með 14 stig. Haukur Óskarsson bætti einnig við 14 stigum og Davíð Páll Hermannsson skoraði 13 stig. Terrence Watson fann sig engan veginn í sókninni en tók þó 10 fráköst og varði 5 skot. Þrennukóngurinn Emil Barja var einnig fjarri sínu besta en hann skoraði 6 stig, gaf 5 stoðsendingar og tók 2 fráköst.
 
 
Umfjöllun tekin af karfan.is
Deila