Fréttir

ÍBV þorði ekki í B-liðið

Körfubolti | 19.03.2016

Íþróttabandalag Vestmannaeyja hefur gefið báða leiki sína við B-lið KFÍ í 3. deildinni sem fara áttu fram á helginni í Forsetahöllinni á Álftanesi. B-liðið vinnur því báða leikina 20-0 og skrifast öll stigin á sjálftitlaðann fyrirliða liðsins, Pétur Markan. Munu þetta vera fyrstu stigin sem hann "skorar" á ferlinum.

Það er óþarfi að taka fram að þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir B-liðsmenn, því auk þess sem körfurnar á Álftanesi eru lægri og því talsverðar líkur á að fyrsta troðsla b-liðsins liti dagsins ljós, þá var allur hópurinn, 12 manns, mættur í borgina með tilheyrandi ferðakostnaði, auk þess sem búið var að bóka íþróttahúsið á Álftanesi fyrir tvo daga. Hafa B-liðsmenn þegar hótað að sniðganga Þjóðhátíð í ár í mótmælaskyni.

Ekki fylgdi með uppgjöfinni hvort Vestmannaeyingar þorðu ekki í B-liðið en athygli vakti að tilkynningin frá þeim kom skömmu eftir að leikmannalistar B-liðsins láku út á netið í gær. Aðrar möguleg kenningar, sem kastað var fram, voru þær að of langt væri á leikstað frá Eyjum eða útlit fyrir þoku yfir Vestmannaeyjum. Auk þess er Landeyjahöfn full af sandi þessa dagana, eins og oftast, og ekki víst að Eyjamenn hafi treyst sér til að sigla alla leið til Þorlákshafnar.

Aðrar afleiðingar þessarar uppgjafar verða væntanlega þær að Eyjamönnum verður vísað út úr Íslandsmótinu með skít og skömm en samkvæmt reglugerð KKÍ um körfuknattleiksmót þá skal "Félag sem ekki mætir til leiks í tvo leiki í sama móti án gildra ástæðna að mati mótanefndar [...] sektað skv. ofangreindu og vísað úr mótinu."

Staðan í deildinni mun þá einnig riðlast talsvert við þetta en Eyjamenn höfðu spilað 7 leiki í deildinni.

B-liðið á einn deildarleik eftir og er hann við Kormák frá Hvammstanga.

Deila