KFÍ hefur samið við ungan og efnilegan leikmann úr Grindavík, Nökkva Harðarson, um að leika með liðinu næstkomandi vetur. Nökkvi, sem er 19 ára, varð á dögunum Íslandsmeistari með sameiginlegu liði drengjaflokks UMFG og Þórs Þorlákshöfn en lék einnig með meistaraflokki Grindvíkinga í Domino's deild karla á liðnu tímabili og kom við sögu í 7 leikjum. Hann er uppalinn hjá UMFG en hefur einnig verið á venslasamningi hjá 2. deildar liðinu ÍG undanfarin tvö tímabil og varð meðal annars 2. deildarmeistari með þeim tímabilið 2013-2014.
Nökkvi er 193 cm framherji sem hefur gott skot og gott vald á boltanum. Hann hefur komið að þjálfun yngri flokka hjá Grindavík og fær afar góða umsögn frá þjálfurum sínum og er eljusamur og duglegur innan vallar sem utan. Í sumar mun hann æfa með Grindvíkingum en mætir svo vestur síðsumars og hefur nám við Menntaskólann á Ísafirði og slæst í hópinn með samherjum sínum í KFÍ.
Deila