Fréttir

KFÍ stóð í úrvalsdeildarliði Þórs

Körfubolti | 03.11.2014
Nebojsa Knezevic átti góðan leik og sýndi oft frábæra takta. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.
Nebojsa Knezevic átti góðan leik og sýndi oft frábæra takta. Ljósmynd: Halldór Sveinbjörnsson.

Leikur KFÍ og Þórs frá Þorlákshöfn sem fram fór í kvöld á Jakanum var spennandi frá upphafi til enda. KFÍ liðið sýndi góða takta og velgdi í sterku liði Þórs verulega undir uggum eða allt þar til í blálokinn þegar gestirnir sigu framúr.

 

Þótt gestirnir hafi leitt megnið af leiknum, og hlutskipti KFÍ hafi verið að elta, munaði sjaldnast miklu á liðinum. Í þrígang náði KFÍ að jafna leikinn og einu sinni að komast yfir í stöðunni 60-59. Það var því alltaf góður möguleiki á að ná að snúa leiknum við en herslumun vantaði upp á að komast yfir og taka leikinn yfir á þessum tímapunktum. Allan leikinn var baráttan til staðar allan leikinn og KFÍ liðið gafst aldrei upp.

 

Segja má að það hafi hjálpað Þórsurum mikið á lokasprettinum að Birgir Björn fékk sína fimmtu villu þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af síðasta fjórðungi. Birgir var mjög öflugur í leiknum og munaði um minna að missa hann af velli. Skömmu síðar fór Andri Már Einarsson einnig af velli með fimm villur en hann átti góða innkomu í leiknum og barðist vel. Jakob Jóhann fyllti skarð Birgis þó vel og tók helling af fráköstum en engu að síður munaði mikið um ógnina sem hafði fylgt Birgi í sóknarleiknum inni í teignum.

 

Það var margt jákvætt í leik KFÍ í kvöld ekki síst sú staðreynd að í þessum leik kom ágætt framlag af bekknum en nokkuð hefur skort á það í undanförnum leikjum í deildinni. Einnig voru ljósir punktar í varnarleiknum sem var á köflum þéttur og góður. Það er því engin ástæða til að hengja haus yfir þessum úrslitum og full ástæða til að taka það jákvæða úr þessum leik og byggja ofan á það.

 

Nebojsa Knezevic átti góðan leik og sýndi oft frábæra takta. Hann skoraði 26 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Sem fyrr segir var Birgir Björn einnig öflugur, skoraði 16 stig og tók 16 fráköst. Andri Már Einarsson skoraði 10 stig og Jakob Jóhann 7.

 

Hjá gestunum var Vincent Stanford stigahæstur með 24 stig og 9 fráköst. Nemanja Sovic kom næstur með 19 stig og 9 fráköst og Emil Karel Einarsson setti 17 stig og tók 8 fráköst. 

Deila