Fréttir

Karfan komin á fulla ferð

Körfubolti | 05.09.2018
Hinn árlegi Körfuboltadagur fer fram í íþróttahúsinu Torfnesi í dag, miðvikudag.
Hinn árlegi Körfuboltadagur fer fram í íþróttahúsinu Torfnesi í dag, miðvikudag.

Hinn árlegi körfuboltadagur Vestra er haldinn í íþróttahúsinu Torfnesi í dag og hefst gleðin klukkan 18. Dagurinn markar upphaf vetrarstarfs körfunnar en æfingar hófust af fullum krafti á mánudag. Að venju eru það þjálfarar og leikmenn meistaraflokks sem standa fyrir ýmiss konar körfuboltasprelli í salnum, fulltrúar barna- og unglingaráðs kynna æfingatöfluna og svo verður slegið upp pylsupartíi áður en allir halda heim um kl. 19:30.

Körfuknattleiksdeild Vestra býður upp á 16 æfingahópa fyrir iðkendur á öllum aldri og hafa þeir aldrei verið fleiri. Í Krílakörfunni eru yngstu börnin en þau eru á leikskólaaldri en elstu flokkarnir eru svo meistaraflokkur og tvö B-lið, karla og kvenna. Æfingar eru gjaldfrjálsar fyrir börn í fjórða bekk og yngri auk þess sem nýliðar í eldri hópum fá að spreyta sig í tvo mánuði áður en æfingagjöld eru innheimt. Líkt og undangengin ár er deildin afar lánssöm með þjálfarahóp og er hvert þjálfarasæti vel skipað, jafnt reynsluboltum sem nýjum og áhugasömum þjálfurum.

Barna- og unglingaráð vonast til að sjá sem flesta foreldra og iðkendur Vestra í kvöld auk þess sem nýliðar eru boðnir sérstaklega velkomnir. Æfingatafla félagsins er kominn á vef Vestra en er þó birt með fyrirvara um breytingar.

Deila