Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2009 - Dagur 5

Körfubolti | 12.06.2009
Leikmenn ná upp baráttuandanum fyrir seinni hálfleik!
Leikmenn ná upp baráttuandanum fyrir seinni hálfleik!
Æfingar og kennsla gengu sinn vanagang í dag. Margir fundu fyrir þreytu í morgun og er það eðlilegt í búðum sem þessum. Þjálfarar aðlaga dagskrána miðað við þetta og eru nokkuð góðir í því að skynja hvað hæfilegt er. Eftir hádegisverð og hvíld tók við fyrirlestur og kennsla hjá Mörthu Ernstdóttur (sjá fyrri frétt).

Eftir tímann hjá Mörthu tók við seinni æfing hjá hópum I og II. Það kom þjálfurunum Borce og Momir þægilega á óvart að krakkarnir voru endurnærð og aftur tilbúin til átaka á körfuboltavellinum. Eðlileg ályktun að boðskapur Mörthu hafi þegar hitt í mark. Strákarnir í hópi III voru svo vel stemmdir í seinni æfingu sinni.

Viðureign liðs leikmanna annars vegar og þjálfara og foreldra hins vegar er hefð fyrir í búðunum. Ekki var brugðið útaf þeirri venju og leikurinn settur á eftir kvöldverð. Þjálfarar höfðu margir hverjir gerst frekir til fjörsins þegar þeir fengu sér ís í eftirmat og óttaðist liðstjóri þeirra afleiðingar þess.

Í upphafi leiks var þjálfaraliðið heldur ferskara og náði mest 22 stiga forskoti, enda mikill styrkur að hafa landsliðsmiðherjann inni í teignum. Það kom þó á daginn að yngri leikmennirnir áttu mikið inni og settu nokkra þrista í andlitið á þjálfurunum og náðu að minnka muninn. Að lokum fóru þó leikar svo að þjálfarar sigruðu með um 8 stiga mun og höfðu menn á orði að innkoma Momir Tasic síðustu 1 mínútuna hafi tryggt sigurinn. Allir skemmtu sér þó vel og bros voru ekki fátíð hjá leikmönnum beggja liða sem og ekki hvað síst áhorfendum.
Deila