Laufey Alda Sigvaldadóttir er móðir Sigvalda Eggertssonar, en drengurinn sá arna er nú að koma í æfingabúðirnar á Ísafirði í þriðja sinn og hefur því verið með okkur frá upphafi. Sigvaldi er KR-ingur og æfir undir stjórn m.a. Finns Stefánssonar þar á bæ og hafa þau því lagt verulegt land undir fót. Með þeim mæðginum í för að þessu sinni er félagi hans hjá KR, Alfonso Birgir Gómez Söruson. Laufey er reyndar að koma í búðirnar í fyrsta sinn og því þótti fréttaritara fróðlegt að heyra hennar fyrstu viðbrögð nú á þriðja degi, því eins og máltækið segir: glöggt er gests augað!
Mjög vel hefur verið tekið á móti okkur og gestrisni heimafólks til fyrirmyndar. Skemmtileg og jákvæð samskipti við skipuleggjendur, þjálfara og aðra foreldra hér í búðunum, þannig að mjög ánægjulegt andrúmsloft ríkir. Þjálfararnir eru greinilega starfi sínu vaxnir og vel það. Nebosja Vidic hefur stýrt hópnum hans Sigvalda og æfingarnar eru vel uppbyggðar og hann gefur sér virkilega góðan tíma til þess að kenna undirstöðu hreyfinga með og án bolta. Hann er því góður kennari að mínu mati og þolinmóður, þannig að þessir krakkar fá heilmikið út úr dvöl sinni hér.
Ég get ekki látið hjá líða að minnast á matinn í mötuneytinu, en hann er alveg frábær og rennur ljúft ofan í maga lang flestra. Þær Lúlu, Ella og Dagný hafa lag á því að bjóða upp á hollan og staðgóðan mat sem krökkum finnst góður. Þegar þau eru í jafn erfiðum æfingum og undir álagi, er ómetanlegt að næringin sé í lagi.
Eitt praktískt atriði finnst mér rétt að hrósa ykkur fyrir að auki, en það er aðstaðan á heimavistinni. Bæði herbergin og hreinlætisaðstaðan (sturtur o.s.frv. á herbergjum) gera það að verkum að dvölin verður enn ánægjulegri fyrir okkur.
KFÍ þakka Laufeyju fyrir að gefa sér tíma til viðtals í dag og álit hennar vegur þungt því hún á bakgrunn í íþróttum (fyrrverandi handboltakona úr Gróttu) og þekkir vel til þjálfunar og æfinga. Vonumst við að sjálfsögðu til þess að fá þau aftur að ári.
Deila