Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2011 (uppfært)

Körfubolti | 22.03.2011
Tony kemur heim í sumar
Tony kemur heim í sumar
Nú fer að styttast í að við tökum við skráningum í körfuboltabúðirnar 2011. Það er hér til vinstri á síðunni tengill sem við uppfærum reglulega. Þar koma fram helstu upplýsingar um búðirnar. Og komum við hér aftur með smá upprifjun.

Það er okkur mikið ánægjuefni að geta tilkynnt það núna að Hrafn Kristjánsson þjálfari meistaraflokka KR og nýkrýndur bikarmeistari KKÍ verður yfirþjálfari körfuboltabúðanna í sumar.  Með honum munu starfa einvalalið þjálfara og fyrstan ber að nefna Finn Stefánsson, sem hefur borið þjálfun yngri flokka KR á herðunum undanfarið.  Þar er á ferðinni mjög athyglisverður þjálfari sem getur svo sannarlega kennt leikmönnum eitt og annað í fræðunum.  

Vinur okkar hann Eggert Maríuson hefur einnig boðað komu sína enda teljum við þá feðga fastagesti búðanna.  Eggert hefur langa reynslu af þjálfun yngri flokka og meistaraflokks kvenna.  Hann hefur leikið stórt hlutverk í æfingabúðum okkar síðustu tvö ár og frábært að hann sé klár í slaginn eina ferðina enn.

Erlendir þjálfarar eru einnig búnir að staðfesta komu sína.  Hinn ástsæli fyrrum þjálfari KFÍ, Tony Garboletto kemur en eins og kannski sumir vita hefur hann verið iðinn við kolann á Englandi og stýrir m.a. toppliðinu Liverpool Mersay Tigers í efstu deild þar í landi.  Hann þarf ekki frekari kynningar við, nema við látum það nægja að hann er einn af þeim betri sem hér hafa starfað.

Næstan nefnum við engan annan en Geof nokkurn Kotila.  Geof kemur frá Danmörku þar sem hann hefur verið yfirþjálfari FOG Næstved síðustu árin, eftir að hann skilaði af sér með svo eftirminnilegum hætti fyrsta bikarmeistaratitli Snæfellinga og frábæru liði.  Geof er auðvitað einn mesti reynslubolti í þjálfun sem finna má og er sannarlega hvalreki fyrir búðirnar og krakkana sem þangað koma.  Ekki má svo gleyma því að hann er frábær þjálfari þjálfara, skemmst er að minnast þjálfaranámskeiðs sem hann hélt hér á landi 2007 og gerður var góður rómur að.  Það er því ekki ónýtt að fá þennan liðsmann í búðirnar.

Síðastan en ekki sístan teljum við góðvin okkar Nebojsa Vidic, sem við höfum starfað með í æfingabúðum síðustu þrjú árin. Hann biður að heilsa frá Serbíu til allra vina sinna á Íslandi og er orðinn spenntur að koma í sumar.  Nebosja er mjög góður tækniþjálfari og það verður enginn svikinn af hans framlagi.

Að venju munu fleiri gestaþjálfarar verða á ferðinni og vinna náið með þjálfurum búðanna.  Eins og í fyrri skiptin verður stefnt að fræðslu fyrir þjálfara í formi fyrirlestra og funda.  Að sjálfsögðu eru allir velkomnir þar.  Og er ákveðið að rukka ekki fyrir þjálfaraklínikið. Þetta er því tilvalið fyrir þjálfara að koma hingað til okkar og taka þátt í skemmtilegri viku.

Frekari upplýsingar gefur Guðjón M. Þorsteinsson (kfibasketball@gmail.com). Deila