Fréttir

Pétur Már áfram með Vestra

Körfubolti | 14.07.2021
Pétur Már Sigurðsson og Ingólfur Þorleifsson, formaður Kkd. Vestra handsala samkomulagið.
Pétur Már Sigurðsson og Ingólfur Þorleifsson, formaður Kkd. Vestra handsala samkomulagið.

Skömmu eftir að Vestri tryggði sér sæti í úrvalsdeild í síðasta mánuði komust Körfuknttleiksdeild Vestra og Pétur Már Sigurðsson að samkomulagi um að hann verði áfram í herbúðum Vestra. Pétur Már mun þjálfa meistaraflokk karla í úrvalsdeildinni og áfram sinna þjálfun meistaraflokks kvenna. Unnið er að því að finna hæfan þjálfara með honum í þetta viðamikla verkefni og verður nánar tilkynnt um það von bráðar.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra lýsir yfir mikilli ánægju með áframhaldandi samstarf við Pétur Má. Árangur meistaraflokks karla á síðasta tímabili var framúrskarandi og er Pétur án vafa rétti maðurinn til að halda áfram með það krefjandi verkefni sem framundan er. Pétur hefur lagt mikinn metnað og alúð í uppbyggingu meistaraflokks kvenna sem steig sín fyrstu skref á síðasta tímabili undir merkjum Vestra. Áframhaldandi aðkoma Péturs að því verkefni er mikilsverð til að tryggja stöðugleika í uppbyggingunni.

Deila