Fréttir

Shiran nýr formaður KFÍ

Körfubolti | 27.04.2014
Nýkjörinn formaður KFÍ
Nýkjörinn formaður KFÍ

Ný stjórn KFÍ hélt sinn fyrsta fund í dag en stjórnarskipti urðu á aðalfundi KFÍ síðastliðinn miðvikudag. Neil Shiran Þórisson tekur nú aftur við stjórnartaumum félagsins en hann var formaður starfsárið 2010-2011. Með honum í stjórn eru Guðni Ólafur Guðnason, gjaldkeri, Birna Lárusdóttir, ritari, Anna Valgerður Einarsdóttir og Ingi Björn Guðnason, meðstjórnendur, en þau koma bæði ný inn í stjórn.  Varamenn eru Sævar Óskarsson, Magnús Þór Heimisson og Óðinn Gestsson. Úr aðalstjórn fara nú Óðinn og Ingólfur Þorleifsson og færir félagið þeim bestu þakkir fyrir óeigingjörn störf um árabil. Sævar Óskarsson lét af formennsku síðla vetrar og eru þakkir til hans ítrekaðar en allir þrír munu áfram koma að störfum félagsins í gegnum ráð og nefndir.

 

Mikill hugur er í nýrri stjórn og er undirbúningur næsta leiktímabils þegar hafinn. Meistaraflokkur karla mun leika í 1. deild á næstu leiktíð undir stjórn Birgis Arnar Birgissonar auk þess sem verið er að kanna möguleikana á því að endurvekja meistaraflokk kvenna eftir eins árs hlé.  Ganga þær þreifingar vel. Undirbúningur hinna árlegu Körfuboltabúða KFÍ er einnig vel á veg kominn en þær fara fram 3.-8. júní. Mikil fjölgun hefur einnig orðið í yngstu flokkum félagsins í vetur ekki síst meðal stúlkna og mun félagið áfram leggja ríka áherslu á uppbyggingu barna- og unglingastarfsins.Nýrrar stjórnar bíða því ærin verkefni og er stefnan sett á að KFÍ verði í röð þeirra bestu á afmælisárinu 2015 en þá verða 50 ár liðin frá stofnun félagsins.

 

 

Á fundinum í dag var einnig skipað í ráð félagsins. Í nýju barna- og unglingaráði sitja nú: Birna Lárusdóttir, Guðfinna Hreiðarsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir, Elvar Ingason, Júlíus Ólafsson, Guðný Alda Gísladóttir og Árni Heiðar Ívarsson. Í nýju meistaraflokksráði sitja: Óðinn Gestsson, Ingólfur Þorleifsson og Magnús Þór Heimisson.

 

Ítarlegar árskýrslur aðalstjórnar og barna- og unglingaráðs fyrir starfsárið 2013-2014 er að finna hér á heimasíðu félagsins undir hnappnum Um KFÍ/málefni stjórnar.

Deila