Meistaraflokkurinn gerði góða ferð suður á föstudaginn en þá mættu þeir liði Ármanns í 1. deild karla. Vestramenn voru talsvert sterkari í leiknum en heimamenn og unnu að lokum öruggan 35 stiga sigur, 70-105.
Það má segja að þetta hafi verið mikill Ísfirðingaslagur því með Ármanni í leiknum léku tveir Ísfirðingar, þeir Leó Sigurðsson og Jóhann Jakob Friðriksson, auk þess sem þjálfari þeirra, Tómas Hermannsson, lék með KFÍ um nokkura ára skeið. Auk þeirra eru einnig Ísfirðingarnir Baldur Ingi Jónasson, Guðni Páll Guðnason, Andri Már Einarsson og Ingvar Bjarni Viktorsson á mála hjá félaginu þótt þeir hafi ekki komið við sögu í þessum leik.
Þess má geta að þjálfari Vestra, Yngvi Páll Gunnlaugsson, spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið en hann skipti sér inn á þegar stutt var til leiksloka.
Vestri er sem fyrr í sjöunda sæti 1. deildarinnar eftir sigurinn, 2 stigum á eftir Hamar í sjötta sæti. Næsti leikur liðsins er á móti Birgi Péturssyni og félögum í Val og fer hann fram á Ísafirði næstkomandi föstudag kl 19:15.
Deila