Fréttir

Sjö leikmenn skrifa undir samninga

Körfubolti | 16.05.2015
Leikmennirnir sem undirrituðu samninga fimmtudaginn 14. maí ásamt Birgi Erni þjálfara, Ingólfi Þorleifssyni formanni KFÍ og Florijan Jovanov leikmanni.
Leikmennirnir sem undirrituðu samninga fimmtudaginn 14. maí ásamt Birgi Erni þjálfara, Ingólfi Þorleifssyni formanni KFÍ og Florijan Jovanov leikmanni.

Það var talsverðu bleki úthellt í íþróttahúsinu á Torfnesi fimmtudaginn 14. maí síðastliðinn. Þegar hefur verið greint frá endurnýjun samnings við Birgi Örn Birgisson þjálfara og nýjum samning við Nökkva Harðarson en auk þeirra skrifuðu 7 leikmenn liðsins undir nýja samninga. Þetta voru þeir Andri Már Einarsson, Björgvin Snævar Sigurðsson, Gunnlaugur Gunnlaugsson, Jóhann Jakob Friðriksson, Óskar Ingi Stefánsson, Rúnar Ingi Guðmundsson og Sturla Stígsson. Auk þess mun Helgi Snær Bergsteinsson skrifa undir á næstu dögum en hann var staddur í Reykjavík þennan dag.

 

Allir þessir leikmenn léku með liðinu á síðastliðnu tímabili utan hinn ungi Rúnar Guðmundsson sem kemur beint upp úr yngri flokkum en mun leggja sitt lóð á vogarskálar meistaraflokks á komandi keppnistímabili. Rúnar var eðli málsins samkvæmt að skrifa undir sinn fyrsta leikmannasamning en einnig kom í ljós að það átti líka við um elsta leikmann hópsins Sturlu Stígsson. Það segir ýmislegt um áhuga og eljusemi varafyrirliðans gagnvart íþróttinni að slík formlegheit hafi ekki verið í forgrunni.

 

Það var létt yfir hópnum við undirritunina og ljóst að góð stemmning er í hópnum enda menn farnir að gíra sig upp fyrir undirbúningstímabilið. Næsta mál á dagskrá hjá þessum piltum er að leggja allt í sölurnar á undirbúningstímabilinu með körfuknattleiksæfingum og styrktaræfingum. 

Deila