Fréttir

Skórnir teknir af hillunni - KFÍ-R sigrar í fyrsta leiknum sínum!

Körfubolti | 22.11.2009
Þjálfarinn var sáttur að leikslokum
Þjálfarinn var sáttur að leikslokum

Í ár hafa uppaldir KFÍ leikmenn dustað rykið af körfuboltaskónum og stofnað lið sem samastendur af leikmönnum sem ólust upp á Ísafirði og spiluðu saman í gegnum yngriflokka og uppí meistaraflokk. Liðið skráði sig í Utandeild Breiðabliks. Í utandeildinni er spilað 2x16 mínútur með hraðsmótsreglum. Klukkan er ekki stoppuð, handboltaskiptingar eru leyfðar og leikmenn fara út af með fjórar villur. Liðið spilaði á föstudagskvöld við Körfuboltalið Vesturbæjar. Hópurinn var skipaður þéttum tíu manna kjarna. Formaður og þjálfari liðsins er Pétur Þór Birgisson. Aðrir leikmenn eru Böðvar Sigurbjörnsson, Gabríel Antonio Rodriquez, Helgi Dan Stefánsson, Atli Kristinsson, Davíð Rúnar Benjamínsson, Sverrir Örn Rafnsson, Þorsteinn Valur Thorarensen, Unnþór Jónsson og Gunnar Ingi Elvarsson.

Leikurinn á föstudagskvöld var fyrsta þolraun liðsins og mættu menn vel stemmdir í leik og spenntir fyrir fyrsta leik. Mislangt var frá því að leikmenn höfðu tekið upp skóna og mátti því búast við riðblettum á leikspili okkar manna. Leikurinn byrjaði ágætlega og þjálfari liðsins lagði línurnar með fyrstu körfu félagsins. KFÍ-R náði fljótt forskoti í leiknum og komst í 15-8. KV náði að jafna leikinn en í lok fyrri hálfleiks kom stórskyttan og matgæðingurinn Gunnar Ingi Elvarsson og skellti niður tveimur þristum og endaði leikhlutinn 25-19.

Í seinni hálfleik skiptu Vesturbæingar yfir í svæðisvörn sem KFÍ-R átti í erfiðleikum með að leysa. Í staðinn fyrir að láta boltann ganga og finna opna manninn fóru strákarnir að einspila og reyna að rekja boltann í gegnum svæðisvörnina. Á móti þessari vörn skoruðu strákarnir aðeins 4 stig á 8 mínútum og voru heppnir að missa ekki forskotið því það gekk heldur ekkert hjá KV í sókninni. Þegar boltinn fór svo að ganga í sókninni þá mynduðust opin færi í sókninni og strákarnir kláruðu leikinn. Lokatölur voru 41-32 og gaman að segja frá því að allir í liðinu skoruðu.

Deila