Fréttir

Stærsta körfuboltamót landsins

Körfubolti | 01.03.2018
Nettófararnir 2017 á verðlaunaafhendingu sem fram fór heima á Torfnesi eftir mótið. Lokaathöfn Nettómótsins fer fram seint á sunnudegi og þá eru Vestfirðingar jafnan lagðir af stað heim á leið því löng fer er fyrir höndum. Því er verðlaunaafhendingin færð heim í hérað.
Nettófararnir 2017 á verðlaunaafhendingu sem fram fór heima á Torfnesi eftir mótið. Lokaathöfn Nettómótsins fer fram seint á sunnudegi og þá eru Vestfirðingar jafnan lagðir af stað heim á leið því löng fer er fyrir höndum. Því er verðlaunaafhendingin færð heim í hérað.

Ríflega þrjátíu keppendur úr Kkd. Vestra ásamt þjálfurum, fararstjórum og foreldrum, eru nú að gera sig klára á Nettómótið í Reykjanesbæ, stærsta körfuboltamót landsins. Þar etja þeir kappi við körfuknattleiksiðkendur af öllu landinu á aldrinum 6-10 ára.

Alls taka 27 félagslið þátt í mótinu í ár, keppnisliðin eru 267 sem leika 680 leiki á 32 klukkutímum. Leikið er á 15 völlum í samtals sex íþróttahúsum. Iðkendur voru um 1.500 í fyrra og er búist við enn fleirum í ár enda stefnir mótið í að verða það stærsta í 28 ára sögu þess. Það eru körfuknattleiksdeildir Keflavíkur og Njarðvíkur sem hafa staðið fyrir mótinu alla tíð og gera það með miklum myndarbrag.

Löng hefð er fyrir þátttöku barna frá Vestfjörðum á þessu stóra móti. Iðkendur frá KFÍ fóru fyrst á mótið árið 2007 og hafa farið allar götur síðan. Þetta er því ellefta árið í röð sem Vestfirðingar sækja Nettómótið heim. Það hét áður Samkaupsmótið en nafninu var breytt fyrir nokkrum árum.

Vestri hefur skráð 32 iðkendur til leiks sem spila í sjö liðum, fjögur drengjalið og þrjú stúlknalið. Þeim fylgja þjálfarar og fararstjórar fyrir hvern hóp auk þess sem stöðugt fleiri foreldrar kjósa að fylgja börnum sínum í mót og taka þátt í gleðinni. Það verður því vaskleg sveit Vestfirðinga sem lætur að sér kveða á Suðurnesjunum um helgina undir merkjum Vestra. Mörg barnanna eru að stíga sín fyrstu spor í keppni og munu þau koma reynslunni ríkari heim. Eitt mót af þessum toga er á við margra vikna æfingar og oft ótrúlegt að sjá framfarirnar, sem verða hjá iðkendum frá fyrsta leik til þess síðasta.

Deila