Fréttir

Sterkur sigur á Reyni

Körfubolti | 23.10.2015
Kjartan átti stórgóðan leik. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson
Kjartan átti stórgóðan leik. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson
1 af 2

KFÍ vann sinn fyrsta sigur í vetur gegn Reyni frá Sandgerði á Jakanum í kvöld 85-53. Gríðarlega sannfærandi og sterkur sigur og gott veganesti í komandi leiki. Nú er mikilvægt að halda haus og halda áfram að byggja ofan á framfarir síðustu vikna.

 

KFÍ hóf leik af miklum krafti. Pressuvörninn gaf nokkra góða stolna bolta og greinilegt að menn mættu ákveðnir til leiks. Til marks um ákafan og kraftinn í varnarleiknum má geta þess að stóru mennirnir sem byrjuðu leikinn, Jóhann Jakob og Nökkvi stálu samtals þremur boltum á fyrstu þremur mínútunum. KFÍ átti fyrsta fjórðunginn algjörlega og lauk honum 22-12.

 

Í öðrum fjórðungi leiksins komu Reynis menn betur stemmdir inn í leikinn. Um miðjan fjórðunginn fór pressuvörn þeirra loksins að bera einhvern árangur auk þess sem KFÍ menn voru óheppnir með skot. Á fimmtándu mínútu var munurinn kominn í þrjú stig 26-23 en KFÍ enduðu fjórðunginn af krafti og á síðustu fimm mínútum hans fóru Kjartan Helgi og Nebosja mikinn, skiptust á að skora og gefa stoðsendingar. Staðan í hálfleik 48-25 og KFÍ piltar nánast búnir að gera út um leikinn.

 

KFÍ gaf ekkert eftir í seinni hálfleik. Fleiri leikmenn fóru að leggja lóð á vogarskálarnar og Reynismenn áttu engin svör. KFÍ leysti svæðisvörn Reynismanna mjög vel allan leikinn, boltinn gekk vel á milli manna þar til opið skot bauðst eða opnun að körfunni inn í teig. Í síðasta fjórðungnum skiptu Reynismenn yfir í maður á mann vörn en það breytti engu. Góð framistaða hjá KFÍ drengjum og gaman að segja frá því að bakvörðurinn ungi og efnilegi Rúnar Ingi Guðmundsson kom inn á þegar tvær mínútur voru eftir og setti niður sín fyrstu stig í meistaraflokki og það þriggja stiga körfu af dýrari sortinni.

 

Nebosja var besti maður vallarins setti 21 stig, tók 11 fráköst og var með 4 stolna bolta. Kjartan Helgi átti einnig frábæran leik, skoraði 20 stig og gaf 3 stoðsendingar. Kjartan var allt í öllu í sóknarleiknum í fyrri hálfleik og skoraði 18 af stigum sínum í honum. Greinilegt að Grindvíkingurinn ætlaði ekki að láta Sandgerðinga eiga neitt inni hjá sér. Daníel Midgley átti skínandi góðan leik einnig. Hann var gjörsamlega út um allan völl, nýtti hraða sinn og snerpu vel og stjórnaði leik KFÍ af öryggi. Daníel skoraði 10 stig, 7 fráköst og 6 stolna bolta. Gunnlaugur Gunnlaugsson skoraði 10 stig og stal einum bolta. Nökkvi Harðarson átti flottan leik, barðist eins og ljón allan tímann og skilaði sínu, 9 stig, 5 fráköst og 2 stolnir boltar. Florijan átti mjög góðar innkomur í leiknum, skoraði 5 stig en var óheppinn í skotum. Hann reif hinsvegar niður 12 fráköst á aðeins 16 mínútum og var frákastahæstur í liðinu. Stígur Berg Sophusson átti fína innkomu í leiknum og skoraði 5 stig. Rúnar Ingi setti 3 stig sem fyrr segir og Sturla Stígsson skoraði 2. Aðrir komust ekki á blað í stigaskori en skiluðu þó sínu, ekki síst í varnarleiknum.

 

Hjá Reyni var Alfreð Elíasson með 13 stig og 12 fráköst, Ólafur Geir Jónsson með 12 stig og 9 fráköst og Hinrik Albertsson með 9 stig. Aðrir með minna.

 

Ítarlega tölfræði má nálgast á vef KKÍ.  

Deila