Fréttir

Sterkur sigur á toppliði Grindavíkur

Körfubolti | 18.11.2021
Nemanja Knezevic var atkvæða mikill í kvöld.
Nemanja Knezevic var atkvæða mikill í kvöld.

Vestramenn unnu sterkan sigur á toppliði Grindavíkur í kvöld í Subwaydeildinni. Þetta er annar sigur Vestra á tímabilinu en Grindvíkingar höfðu fyrir leikinn unnið alla leiki sína nema einn.

Vestramenn byrjuðu mun betur, spiluðu hraðan liðsbolta sem skilaði góðum körfum og leiddu með 25 stigum gegn 17 eftir fyrsta fjórðung. Grindvíkingar gerðu gott áhlaup í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn í 40-36 fyrir hálfleik. Í seinni hálfleik var leikurinn í járnum en Grindvíkingar náðu að jafna í 42-42 þegar tæpar tvær mínútur voru búnar af leikhlutanum. Í loka fjórðungnum náðu þeir svo að jafna aftur í 67-67 og komust yfir 67-69 þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar. Lengra komust Suðurnesjamennirnir þó ekki. Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson fór útaf með sína fimmtu villu þegar tæpar tvær mínútur voru eftir og þá datt botninn endanlega úr tunnunni. Vestramenn sigldu öruggum sigri í höfn 86-71.

Frábær sigur hjá Pétri Má og hans mönnum. Greinilega góð sigling á liðinu.

Atkvæðamestir í liði Vestra voru þeir Julio Calver De Assis Afonso og Nemanja Knezevic. Nemanja var með tröllatvennu að hætti hússins, 21 stig og 14 fráköst, auk þess að spila hörkuvörn á einn besta miðherja deildarinnar Ivan Aurrecoechea. Julio var líka með glæsilega tvennu 20 stig og 13 fráköst, auk þess að gefa 6 stoðsendingar. Marko Jurica átt líka frábæran leik, skoraði 18 stig og var með frábæra skotnýtingu, Ken-Jah Bosley skoraði 12 stig, Hilmir Hallgrímsson 9, Alejandro Rubiera 5 og Hugi Hallgrímsson 1.

Hjá gestunum var Elbert Matthews stigahæstur með 19 stig, Ivan Aurrecoechea með 18 og Naor Sharabani með 14.

Næst mæta strákarnir Njarðvík á útivelli föstudaginn 3. desember en um næstu helgi er landsliðsgluggi og því frí í Subwaydeild karla.

Deila