Körfubolti | 11.10.2013
Smith á ferð. Mynd Benedikt Hermannsson
KFÍ og Njarðvík mættust í kvöld í Dominos-deild karla á Jakanum á Ísafirði. Vestanmenn mættu í leikinn með fullskipað lið en Njarðvíkingar mættu einungis níu en þar vantaði einna helst hinn 218 cm háa miðherja, Egil Jónasson.
Áður en leikurinn hófst var mínútuþögn til minningar um Ólaf Rafsson, fyrrum formann KKÍ sem lést í sumar, og Eirík Ragnarssonar, fyrsta formanns KFÍ, sem lést 4. október síðastliðinn.
Blaðamannastúkan á Torfnesi var þétt skipuð í leiknum en auk fréttaritara Körfunnar voru fjölmiðlamenn frá Mogganum, RÚV, BB og KFÍ TV í þröngri stúkunni auk þess sem Vísir.is streymdi útsendingu KFÍ TV í beinni á vefsíðu sinni.
KFÍ byrjaði leikinn með trukki og komust í 8-0 með tveimur þristum frá Jason Smith og körfu frá Mirko Stefán. Njarðvíkingar pressuðu hins vegar stíft allan völlinn og komust loks yfir 10-11 með AND1 frá Loga Gunnarssyni. Njarðvíkingar héldu svo áfram í bílstjórasætinu út leikhlutann en heimamenn voru aldrei langt undan. Gestirnir settu þó fjögur síðustu stig leikhlutans og leiddu 23-28 í lok hans.
Djúpmenn byrjuðu annan leikhluta með sömu orku og þeir byrjuðu þann fyrsta og náðu fljótt forustunni. Þegar þrjár mínútur eru eftir af fyrri hálfleik, í stöðunni 40-40, ná Njarðvíkingar 13-4 áhlaupi og leiða 44-53 í lok hans.
Njarðvíkingar héldu áfram að bæta við forustuna í þriðja leikhluta og náðu mest 12 stiga forustu, 52-64, þegar þrjár mínútur voru liðnar af honum. En baráttan hjá KFÍ kom þeim aftur inn í leikinn og einungis fjórum mínútum seinna var munurinn orðinn einungis eitt stig, 70-71.
Njarðvíkingar byrjuðu fjórða leikhluta mun betur og munaði þar miklu um að Elvar Már Friðriksson hrökk loksins í gang. Þegar þrjár mínútur eru eftir þá er munurinn orðinn 10 stig, 88-98, og lítur allt út fyrir að öruggur sigur Njarðvíkinga sé í uppsiglingu. En Ísfirðingar neituðu að gefast upp. Jason, Mirko Stefán og Ágúst setja allir niður 2 stig fyrir KFÍ og þegar 56 sekúndur eru eftir þá setur Ágúst niður þrist og munurinn skyndilega orðinn 3 stig, 97-100. Mikil spenna var þessar síðustu sekúndur en Njarðvíkingar héldu haus og kláruðu leikinn af vítalínunni. Lokastaðan því 98-106 fyrir Njarðvík.
Logi Gunnarsson, Nigel Moore og Elvar Friðriksson skoruðu allir 23 stig fyrir Njarðvík en Snorri Hrafnkelsson átti einnig flottan leik með 19 stig. Gamla brýnið og fyrrum leikmaður KFÍ, Friðrik Erlendur Stefánsson, var svo með 5 stig, 100% vítanýtingu og að minnsta kosti 4 villur.
Einhverjir varnarmenn Njarðvíkinga þurfu að öllum líkindum að fara á brunadeildina eftir leikinn því Jason Smith var sjóðandi heitur í leiknum. Hann skoraði 41 stig og setti niður 9 af 12 tvistum sínum, 4 af 6 þristum og 11 af 13 vítum ásamt því að taka 7 fráköst og gefa 7 stoðsendingar. Nokkuð ljóst er að hann er að fylla skarð Damier Pitts frá því í fyrra og gott betur.
Ágúst Angatýsson átti einnig skínandi leik fyrir KFÍ og setti 19 stig, jafn mikið og Mirko Stefán Virijevic sem einnig tók 8 fráköst. Hraunar Guðmundsson setti svo niður 9 stig, öll í fjórða, og Jón Hrafn Baldvinsson bætti við 8 stigum.
Tengt efni
Deila