Vestri mætti Fjölni fyrr í kvöld í 1. deild karla í körfubolta. Skemmst er frá því að segja að gestirnir fóru með sigur af hólmi 68-86. Afar góður þriðji leikhluti gestanna skar í raun út um leikinn eftir jafnan fyri hálfleik. Lið Vestra var hálf vængbrotið í leiknum, Yima Chia-Kur varla stiginn upp úr veikindum auk þess sem Adam Smári var meiddur og Magnús Breki var kallaður heim í til Þórs í Þorlákshöfn vegna meiðsla þar á bæ. Þrátt fyrir þetta eru Vestramenn ekki af baki dottnir og næst á dagskrá er mikilvægur útileikur gegn FSu á Selfossi á sunnudaginn.
Vestramenn hófu leikinn í kvöld af miklum krafti og skoruðu fyrstu níu stig leiksins án þess að gestirnir næðu að svara. Eftir það vöknuðu Fjölnismenn til lífsins og gerðu tíu núll áhlaup. Eftir það var fyrsti leikhluti í járnum og liðin skiptust á að hafa forystu. Þegar hálf mínúta var eftir var jafnt 22-22 en þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir kom Elvar Sigurðsson gestunum yfir með þriggja stiga körfu 22-25. Í öðrum leikhluta héldu gestirnir forystunni yfirleitt í þetta 5-7 stigum. Það var svo raunin þegar flauta var til hálfleiks og staðan 37-44 gestunum í vil.
Eins og fyrr segir voru Fjölnismenn mun betri í þriðja fjórðungi og segja má að sá leikhluti hafi skorið úr um úrslitin. En fleira kemur til því Vestramenn voru með slaka þriggja stiga nýtingu (17%) og vítanýtingu (50%), auk þess að taka 20 færri fráköst en Fjöjlnismenn í leiknum. Mest var forskot gestanna 21 stig í stöðunni 48-69 undir lok þriðja leikhluta. Í loka fjórðungnum skoruðu bæði lið fremur lítið og heimamenn náðu aldrei áhlaupinu sem upp á vantaði til að snúa leiknum.
Ítarlega tölfræði leiksins má nálgast á vef KKÍ.
Deila