Fréttir

Tap í fyrri leiknum gegn Þór

Körfubolti | 10.01.2015
Panche fór fyrir leikmönnum KFÍ í dag.
Panche fór fyrir leikmönnum KFÍ í dag.

Karlalið KFÍ tapaði fyrri leiknum af tveimur þessa helgina í baráttuleik við Þór Akureyri. Leikurinn endaði 71-77 gestunum í vil.

 

KFÍ hóf leikinn af miklum krafti með góðri pressuvörn sem skilaði sjö stiga forskoti þegar fyrsti leikhluti var úti. Þórsarar mættu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og náðu að þétta vörnina verulega sem hafði það í för með sér að KFÍ skoraði aðeins 10 stig í leikhlutanum og heimamenn leiddu aðeins með þremur stigum í hálfleik. Þriðji leikhluti var svo hnífjafn og enn leiddu heimamenn með þremur stigum þegar honum lauk. Botninn datt svo algjörlega úr leik KFÍ síðasta leikhlutanum. Flest allar aðgerðir KFÍ voru fyrirsjáanlegar og einfalt fyrir Þór að verjast einstaklingsframtakinu sem var ráðandi í sóknarleiknum, mikið knattrak og lítið flæði í spilamennsku liðsins. Fyrsti sigur Þórs í deildinni því staðreynd.

 

Panche átti góðan leik og Nebojsa var einnig drjúgur.  Birgir Björn var að vanda öflugur í fráköstunum. Framlag annara leikmanna var töluvert minna.

 

Frisco Sandidge var þó maður vallarins og framlag hans fyrir Þórsliðið var frábært, skoraði mikilvægar körfur, var öflugur í fráköstum og í vörninni.  Átti heilt yfir skínandi leik.

 

Það voru ljósir punktar í leik KFÍ í dag svo sem pressuvörnin í upphafi. Þó er ljóst að menn verða að koma mun ákveðnari til leiks á morgun til að landa sigri og halda einbeitingu út leikinn og sömu ákefð og var fyrir hendi í upphafi leiks.

 

Ítarlega tölfræði má nálgast á vef KKÍ.

Deila