Fréttir

Tíundi flokkur drengja vann til silfurverðlauna á Íslandsmótinu

Körfubolti | 15.05.2018
Vestramenn taka við silfurverðlaunum.
Vestramenn taka við silfurverðlaunum.

Um síðustu helgi fóru fram undanúrslit og úrslit á Íslandsmóti yngri flokka hjá Körfuknattleikssambandi Íslands. Þar stóðu Vestramenn, sameiginlegt lið Vestra og Skallagríms, í ströngu og unnu til silfurverðlauna. Þetta er einhver besti árangur sem vestfirskt körfuboltalið hefur náð á Íslandsmóti frá því 1967 þegar 2. flokkur stúlkna hjá KFÍ urðu Íslandsmeistarar.

Í undanúrslitum, sem fram fóru á föstudag, mættu Vestramenn sterku liði Valsmanna. Strákarnir okkar áttu frábæran leik og sigruðu örugglega 58-80. Segja má að þeir hafi gert út um leikinn með stórbrotnum öðrum fjórðungi þar sem þeir skoruðu 26 stig gegn 7.  Í úrslitum mættu Vestramenn svo KR í sannkölluðum naglbít. Leikurinn var í járnum nær allan tímann. Undir lok leiks voru Vestramenn komnir í vænlega stöðu en KR-ingar náðu að knýja fram framlengingu þar sem þeir höfðu svo að lokum naumann eins stigs sigur, 74-75.

Þótt auðvitað sé súrt í brotið að tapa úrslitaleik á þennan hátt er ljóst að árangur Vestramanna er magnaður. Efast má um að nokkurt lið hafi lagt jafn hart að sér við æfingar og keppni enda skilja hundruðir kílómetra liðsmennina að sem búa í Borgarfirði, Borgarnesi, Hólmavík, Ísafirði og á Suðureyri. Þjálfarar liðsins þeir Nebojsa Knezevic og Pálmi Þór Sævarsson eiga mikið hrós skilið fyrir frábært skipulag æfinga en eins og árangurinn ber með sér er ekki að sjá annað en að liðið æfi saman oft í viku. Það er þó ekki raunin en með ótrúlegri þrautsegju og dugnaði hefur foreldrum, þjálfurum og liðsmönnum tekist að æfa saman við hvert tækifæri. Fréttaþátturinn Landinn fjallaði einmitt um þetta í skemmtilegu innslagi í vetur.

Við óskum Vestramönnu innilega til hamingju með árangurinn. Það verður forvitnilegt að fylgjast með þessum efnilegu körfuboltadrengjum á komandi árum.

Áfram Vestri!

Deila