Á laugardaginn fer fram toppslagur b-liðs KFÍ og Kormáks í 3. deild karla. Bæði lið eru jöfn að stigum í 1-4. sæti og munu því sigurvegararnir trjóna einir á toppi deildarinnar í að minnsta kosti sólahring.
B-liðið hefur farið vel af stað í deildinni en í fyrsta leik sínum lagði það crossfitstjörnufyllt lið Grundarfjarðar í Bolungarvík þar sem fyrrum landsliðsmiðherjinn Birgir Örn Birgisson fór hamförum og setti 25 stig og reif niður 20 fráköst. Á síðasta sunnudagi lagði liðið svo b-lið ÍA með mikilli flugeldarsýningu á Akranesi þar sem Pétur Már Sigurðsson og Baldur Ingi Jónasson sameinuðust um að setja niður 16 þrista og skora 74 stig til samans.
Leikurinn, sem hefst kl 16:00, fer að sjálfsögðu fram á Jakanum á Ísafirði, frítt er inn en takmarkað sætapláss.