Fréttir

Toppslagur í Grindavík í kvöld

Körfubolti | 18.11.2011
Lið Íþróttafélags Grindavíkur.
Lið Íþróttafélags Grindavíkur.

Það verður sannkallaður toppslagur í Röstinni í Grindavík í kvöld þegar topplið KFÍ mætir spútnik liði ÍG í 1. deildinni.

 

Grindvíkingar hafa heldur betur komið á óvart í vetur eftir að hafa unnið 2. deildina í vor, en þeir sitja í 3. sæti deildarinnar og geta náð því efsta með sigri í kvöld.

 

Mörg kunnuleg andlit spila með Grindvíkingum og má þar helst nefna Ísfirðinginn Hjalta Má Magnússon sem flestir aðdáendur KFÍ ættu að þekkja. En hann er ekki eini fyrrum leikmaður KFÍ sem spilar með Grindvíkingum því Ásgeir "Geiri Galdur" Ásgeirsson og Haraldur Jón Jóhannesson eru einnig í liðinu, en sá síðarnefndi er vel titlaður sem eigandi, þjálfari og fyrirliði félagsins.

 

Grindvíkingar hafa einnig vakið athygli fyrir landsliðskempurnar í hópnum en Helgi Jónas Guðfinnsson hefur verið að gera frábæra hluti með liðinu en hann er að skora 31 stig, taka 9 fráköst og gefa 6 stoðsendingar í leik. Auk Helga hefur hinn síungi Guðmundur Bragason verið að gera andstæðingum Grindvíkinga lífið leitt en þessi 44 ára gamli miðherji er að skora 19 stig og taka 13,3 fráköst að meðaltali í leik í vetur.

 

Eins og fyrr segir verður leikurinn í Röstinni í Grindavík og hefst kl 19:15.

Deila