Fréttir

Tveir sigrar í tvíhöfða helgarinnar

Körfubolti | 05.03.2023

Eftir þó nokkra bið þá voru loks heimaleikir á Torfnesi um helgina. Spilað var við KV, en samkomulag hafði náðst við þá heiðursmenn hjá KV að spila báða leikina á Ísafirði, á laugardegi og sunnudegi, en slíkt sparar kostnað fyrir bæði lið.

Marko Jurica lykilleikmaður í liði Vestra var meiddur, og nauðsyn fyrir aðra að stíga upp.

KV menn komu 8, vestur, ungir og sprækir strákar, sem hafa verið tengdir yngri flokkum KR.

Leikur laugardagsins

Luka og Jonathan leiddu lið Vestra í uppafi leiks og framan af í leiknum. Pétur þjálfari leyfði ungu strákunum að spreyta sig fljótt í leiknum. Elmar, Hjálmar og Jón þakka traustið með góðri vörn og góðum körfum. KV hleyptu Vestra aldrei langt á undan sér. Skoruðu mikilvægar körfur og spjaldið ofan í þrista og héldu sér inn í leiknum. Gunnlaugur kom með sterkan þrist og baráttu í vörnina. Liðsvörnin hefði þó geta verið betri í hálfleiknum, kæruleysi og of mikið af ótrufluðum skotum andstæðinga. KV var of oft að komast með bakvarðahnoði að körfunni en auk þess voru þeir að setja mikilvægar körfur með skvettu af heppni, en þær körfur telja jafnmikið og aðrar. Vestri leiddi í hálfleik 48-36.

Seinni hálfleikur var jafn og ljóst að KV ætlaði sér ekkert að gefa eftir og sóttu stíft á Vestra. Jonathan var allt í öllu í leik Vestra og var greinilega vel tengdur, að hitta mjög vel, og var skothöndin sjóðandi heit. Luka var einnig drjúgur undir körfunni. KV var alltaf að ógna og var það í raun spil Vestra í fyrri hálfleik sem veitti örlitla öryggislínu í hálfleiknum.

Framlag unglinganna í liðinu var of lítið í hálfleiknum. James setti þó flotta þrista til að stöðva eitt af áhlaupum KV. Elmar skoraði tvær kröfur og Magnús eina. Aldursforsetarnir og reynsluboltarnir Birgir og Gunnlaugur skiluðu sínu hlutverki vel. Gaman að geta teflt fram þeim feðgum Magnúsi og Birgi í sama leiknum og á sama tíma. Þrátt fyrir hetjulega baráttu KV þá sigraði Vestri að lokum 98-90.

Stigaskor leiksins á Laugardaginn: Jonathan 48 stig, Luka 16 Stig, Gunnlaugur 10 stig, Hjálmar 7 stig, James 6 stig, Jón 3 stig, Magnús 2 stig og Birgir 2 stig.

Leikur Sunnudagsins

Í upphafi leiks þá virtist einhver sunnudagsþreyta einkenna KV. Allavega buðu þeir ekki upp á sömu skotsýningu og þeir enduðu á í leik laugardagsins. Vestri var heilt yfir alltaf skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og voru þar Luka og Jonathan sem fyrr að draga vagninn. Elmar var líka að finna netmöskvana og setti snögga tvo þrista í fyrsta leikhlutanum. KV vöknuðu aðeins og tóku annan leikhlutann, enda voru Vestra menn full slakir og spiluðu af lítilli ákefð í vörn.

Pétur var sem fyrr að skipta vel inn á af bekknum og leyfði ungu strákunum Elmari, Hjálmari, Jóni og Sigurði að fá mikilvægar mínútur. Hjálmar og Sigurður Darri nýttu tækifærið og sóttu körfur og víti og Elmar var að skjóta vel.

James var drjúgur í að þreyta leikstjórnanda KV með góðri vörn. Reynsluboltinn Birgir var mikilvægur að venju til að veita dýrmæta hvíld, góður í vörn og kláraði klassískt færi undir körfunni. Gunnlaugur kom líka inn með baráttu, fleygði sér á bolta og setti auðvelda körfu. Staðan 53-44 fyrir Vestra í hálfleik.

Seinni hálfleikur var eign Vestra og var ljóst að bensínið var búið hjá liðsmönnum KV. Þeir voru þó að reyna að gera sig líklega til að klóra í bakkann með ævintýralegum þristum, spjaldið ofan í þristur telst reyndar varla með, en virðist miðað við leiki helgarinnar vera einn af styrkleikum KV. Þessi „áhlaupsneistar“ KV liðsmanna var slökktur af Vestra.

Jonathan og Luka leiddu liðið sem fyrr. Hins vegar kom gott framlag frá ungu strákunum bæði í vörn og sókn, ekkert gefið eftir og þeir voru æstir í að setja sitt mark á leikinn og gerðu það vel. Jón kláraði fjórða hluta með sínum 10 stigum, 2 þrista og 2 hraðaupphlaup eftir óeigingjarnt spil frá Jonathan. Elmar setti svo góðar körfur þegar hann leysti Jonathan af hólmi sem leikstjórnandi, og einn besti leikur hans í vetur. Magnús fylgdi fordæmi föður síns og setti keimlíka körfu undir körfunni. Sigur Vestra 112-88, í höfn.

Stigaskor leiksins á Sunnudaginn: Jonathan 37 stig, Luka 24 Stig, Elmar 15 stig, Jón 10 stig Gunnlaugur 9 stig, Hjálmar 8 stig, James 3 stig, Magnús 2 stig og Birgir 2 stig.

Deila