Minniboltadrengirnir í KFÍ fóru suður á föstudaginn í keppnisferð en fresta þurfti ferð þeirra um daginn vegna veðurs. Ferðin varð nú aðeins styttri í annan endann en áætlað var því Snæfellingar gátu ekki tekið á móti okkur á sunnudeginum eins og stefnt hafði verið að. Minniboltadrengirnir okkar hafa reynt ýmislegt í vetur í tengslum við keppnisferðir þ.a. þeir kipptu sér ekki upp við breytt ferðaplan og héldu glaðir af stað til höfuðborgarinnar seinni part föstudags.
Við komuna til Reykjavíkur var byrjað á að borða og síðan haldið í Vesturbæinn en við höfðum fengið inni í félagsmiðstöðinni í Frostaskjóli. Eftir góðan ísgöngutúr var farið snemma að sofa. Eitthvað var loftleysi í tengslum við vindsængur að stríða okkar mönnum um nóttina en þeir létu það ekki á sig fá og vöknuðu sprækir og hressir tilbúnir í slaginn.
Leiknir voru tveir leikir í Smáranum í Kópavogi, einn við Breiðablik og hinn við Stjörnuna undir dyggri stjórn Zekos sem hljóp undir bagga með sínu gamla félagi. Báðir leikirnir töpuðust en okkar menn börðust vel og sýndu oft góða takta. Sérstaklega gaman var að sjá nokkrar þriggja stiga körfur steinliggja. Eftir að körfuboltaleikjunum var lokið lá leiðin í Skemmtigarðinn í Smáralind þar sem tekið var vel á því í Lasertag og gaman að segja frá því að drengirnir voru álíka sveittir eftir þá raun eins og eftir leikina. Heimferðin gekk eins og í sögu og þar með hafa minniboltadrengirnir í KFÍ lokið keppni í vetur.
Deila