Fréttir

Vorfjarnám 1. 2. og 3. stigs þjálfaramenntunar ÍSÍ

Körfubolti | 18.01.2014

Vorfjarnám þjálfaramenntunar ÍSÍ hefst í febrúar eins og undanfarin ár.  Fjarnám 1. stigs hefst mánudaginn 17. febrúar og nám á 2. og 3. stigi hefst mánudaginn 24. febrúar.  Sérstök athygli er vakin á því að nám á 3. stigi er nú í fyrsta sinn í boði hjá ÍSÍ.  Fjölmargir þjálfarar hafa útskrifast af 2. stigi undanfarin ár og hafa því möguleika nú á að halda áfram námi og auka við réttindi sín.

 

Nám allra stiga er almennur hluti fagþekkingar íþróttaþjálfara og gildir jafnt fyrir allar íþróttagreinar.  Sérgreinahluta námsins sækja þjálfarar hjá viðkomandi sérsamböndum ÍSÍ.  Námið er allt í fjarnámi og þ.a.l. eru engar staðbundnar lotur.

 

Námið hefur verið afar vinsælt undanfarin ár enda gefur það réttindi sem vottuð eru af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.  Vaxandi kröfur eru gerðar í samfélaginu um þekkingu og réttindi íþróttaþjálfara og eru íþróttafélög þessi misserin að auka áherslu og kröfur þessu tengdu enda um að ræða einn stærsta og mikilvægasta þáttinn í starfi félaganna. 

 

Meðal þess sem kennt er á þessum námskeiðum má nefna íþróttasálfræði, íþróttameiðsl og forvarnir gegn þeim, næringarfræði, siðfræði, heilsufræði, uppbyggingu líkamans og hæfni hans til þjálfunar, gerð mismunandi þjálfunaráætlana, aðferðir við tækniþjálfun, stjórnunaraðferðir o.fl. o.fl. 

 

Skráning á námskeiðin er á namskeid@isi.is eða í síma 514-4000.  Nemendur á 1. stigi þurfa að hafa lokið grunnskólaprófi.  Nemendur á 2. stigi þurfa að hafa lokið 1. stigi, hafa 6 mánaða starfsreynslu sem íþróttaþjálfarar og hafa gilt skyndihjálparnámskeið, þ.e. að hafa tekið slíkt námskeið á undanförnum 4 árum.  Nemendur á 3. stigi þurfa að hafa lokið 2. stigi, hafa 12 mánaða starfsreynslu sem íþróttaþjálfarar og gilt skyndihjálparnámskið.

 

Verð:  1. stig kr. 25.000.- og eru þá öll námskeiðsgögn innifalin og send á heimilisföng nemenda.  2. stig kr. 18.000.- og námskeiðsgögn frá 1. stigi notuð áfram ásamt ítarefni.  3. stig kr. 18.000.- og námskeiðsgögn frá 1. og 2. stigi notuð áfram ásamt ítarefni frá kennurum. 

 

Rétt er að benda á að þjálfarar innan KFÍ og aðrir sem áhuga hafa á að leggja þjálfun fyrir sig, fá námskeiðsgjaldið endurgreitt frá félaginu að námi loknu.

 

Allar frekari upplýsingar um þjálfaramenntun ÍSÍ veitir Viðar Sigurjónsson Skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri í síma 460-1467 og/eða á vidar@isi.is

Deila