Fréttir

Æfingabúðir á Spáni

Körfubolti | 23.06.2017
Hópurinn í Leifsstöð skömmu fyrir brottför.
Hópurinn í Leifsstöð skömmu fyrir brottför.
1 af 2

Fríður hópur Vestrakrakka flugu til Spánar í gærkvöldi til að taka þátt í körfuboltabúðum sem fram fara í bænum Amposta, tveggja tíma fjarlægð suður af Barcelona. Hópurinn telur 21 krakka auk fararstjóra og annarra fylgifiska. Í aðdraganda ferðarinnar hafa krakkarnir notið mikils stuðnings frá einstaklingum og fyrirtækjum á Vestfjörðum, einkum í tengslum við áheitasöfnun fyrir körfuboltamaraþon sem þau þreyttu í síðasta mánuði á Suðureyri. Þess má einnig geta að krakkarnir eru búsettir í sex byggðakjörnum á norðanverðum Vestfjörðum, allt frá Hólmavík í austri til Þingeyrar í vestri.

Í sumar eru liðin 10 ár síðan krakkar á okkar vegum fóru síðast til útlanda í körfuboltabúðir en þá var farið til Zlatibor í Serbíu. Driffjöðurinn í þeirri ferð var Borce Ilievski sem þá var yfirþjálfari hjá KFÍ. Upp úr þeirri ferð kviknaði svo hugmyndin að Körfuboltabúðum KFÍ (nú Vestra) sem stofnaðar voru að fyrirmynd búðanna í Zlatibor. Það má því segja að heil kynslóð körfuboltakrakka hafi í raun ekki þurft að sækja körfuboltabúðir út fyrir sinn heimabæ í tæpan áratug.

Síðasta haust var hinsvegar kominn ferðahugur í fólk og því ákveðið að hópur elstu iðkenda Vestra færu í körfuboltabúðir í útlöndum. Þá vildi svo skemmtilega til að fyrrnefndur Borce Iliveski var að fara af stað með alþjóðlegar körfuboltabúðir í Amposta á Spáni undir merkjum BIBA (Borce Ilievski Basketball Academy). Þau voru því hæg heimantökin að hafa samband við Borce og leggja land undir fót enda ljóst að körfuboltaleg gæði yrðu tryggð hjá þeim mikla reynslubolta. Borce hefur einnig fengið til liðs við sig glæsilegan hóp alþjóðlegra þjálfara sér til aðstoðar.

Veðrið í Amposta leikur við hópinn en hér eru á bilinu 28-32 gráður og sól daginn langan. Stór hluti æfinganna fer fram utandyra en æft er þrisvar á dag. Reyndar er hitinn það mikill að verulega reynir á krakkana en þau ættu þó að venjast aðstæðum þegar líður á vikuna. Það er mikil tilhlökkun í hópnum enda vita þessir krakkar fátt skemmtilegra en að sjúga í sig körfuboltaþekkingu því sem næst allan sólarhringinn.

Deila