Ungmennalið Vestra í blaki varð um helgina bikarmeistari í flokki karla 20 ára og yngri. Bikarkeppnin var spiluð að Varmá í Mosfellsbæ og hófst á fjögurra leikja undankeppni. Þar sigruðu Vestrastrákarnir í öllum sínum leikjum og töpuðu aðeins einni hrinu. Þessi árangur skilaði þeim í úrslitaleikinn þar sem þeir mættu sterku liði KA.
Í úrslitaleiknum mættu Akureyringar grimmir til leiks og unnu fyrstu hrinuna eftir upphækkun. Eftir það litu Vestramenn hins vegar aldrei til baka, unnu næstu þrjár hrinur nokkuð örugglega og tryggðu sér bikarmeistaratitilinn.
Þetta Vestralið samanstendur af piltum á aldrinum 14 til 19 ára og fyrir marga þeirra var þetta síðasta mótið í unglingaflokki eftir að hafa um árabil skipað eitt allra sterkasta unglinga- og ungmennalið landsins. Það er til marks um gott starf í yngri flokkum Vestra að allir piltarnir í bikarmeistaraliðinu hafa, þrátt fyrir ungan aldur, skilað sér upp í meistaraflokk þar sem þeir mynda nú kjarnann í úrvalsdeildarliði Vestra. Tveir þeirra spila raunar með öðrum úrvalsdeildarliðum, en hafa heimild til að spila með Vestra í U-20 leikjum.
Deila