Fréttir

Vestri með fullt hús stiga

Knattspyrna | 17.05.2016

Vestri er á toppi 2. deildarinnar eftir 2-0 sigur á Hetti á laugardaginn. Blaðamaður Bæjarins besta var á leiknum og var fjallað um hann í netútgáfu blaðsins.

Ungu heimamennirnir í Vestra sáu til þess að liðið er á toppi 2. deildar Íslandsmótsins eftir tvær umferðir. Vestri og Höttur léku á Torfnesinu á Ísafirði á laugardaginn og endaði leikurinn með 2-0 sigri Vestra. Hjalti Hermann Gíslason skoraði fyrra mark Vestra um miðjan fyrri hálfleik. Stuttu síðar skaut Viktor Júlíusson að marki og boltinn fór í netið af liðsmanni Hattar og telst sjálfsmark í leikskýrslu dómara.

Í seinni hálfleik var einum leikmanni Hattar vikið af velli með rautt spjald. Þetta var annar sigur Vestra og er liðið á toppi deildarinnar með fullt hús stiga og hefur ekki fengið á sig mark.

smari@bb.is

Næsti leikur Vestra er útileikur gegn ÍR í Breiðholtinu og fer fram laugardaginn 21. maí.

Deila