Í gær var heldur betur handagangur í öskjunni þegar síðasta æfing vetrarins hjá Krílakörfunni svokölluðu var haldin. Í Krílakörfunni eru vaskir körfuboltakrakkar á leikskólaaldri, sem hafa æft í vetur á vegum Kkd. Vestra. Þessi síðasta æfing fór fram í íþróttahúsinu á Torfnesi og þótti hópnum það sérlega spennandi þar sem hann æfir annars í gamla íþróttahúsinu við Austurveg.
Um og yfir 20 börn hafa sótt Krílakörfuæfingarnar í vetur og hefur hópurinn tekið miklum framförum þótt einungis sé æft einu sinni í viku. Krakkarnir eru fjögurra og fimm ára og mun eldri hópurinn hefja skólagöngu í haust og eiga þess þá kost að byrja æfingar í Krakkakörfu Kkd. Vestra. Einnig verða tvö vikulöng sumarnámskeið í boði fyrir þann hóp. Yngri hópurinn getur síðan mætt galvaskur aftur í Krílakörfuna í sumarlok og haldið áfram að betrumbæta körfuboltahæfileikana.
Helga Salóme Ingimarsdóttir hefur þjálfað hópinn í vetur af stakri snilld ásamt syni sínum Ingimari Aroni Baldurssyni, leikmanni meistaraflokks karla. Þau settu upp krefjandi þrautabraut á lokaæfingunni og skelltu í allskyns skemmtilegheit og enduðu svo á afhendingu viðurkenninga til hvers og eins. Var ekki annað að sjá en allir hefðu skemmt sér hið besta, jafnt iðkendur sem þjálfarar og foreldrar sem horfðu á.
Deila