Fréttir

Sigur í hörkuleik hjá drengjaflokk.

Körfubolti | 28.09.2010 Fyrsti leikur Íslandsmótins hjá KFÍ hófst í kvöld þegar drengjaflokkur fékk Snæfell/Borgarnes (Snægrímur) í heimsókn. Þetta var hörhuleikur og gaman að sjá hversu margir mættu á leikinn og er það virðingavert, en um 150 manns voru á Jakanum í kvöld.

Leikurinn byrjaði fjörlega og greinilegt að bæði lið ætluðu ekki að dansa neinn vangadans við hvorn annan. Strákarnir í KFÍ byrjuðu betur en Snægrímur var skammt undan og staðan eftir fyrsta leikhluta 19-15 og mikil frákastabarátta í vörn og sókn á milli beggja liða.

Í öðrum leikhluta náðum við góðum spretti og vorum að spila hörkugóða vörn á strákana úr Snægrím. Þetta tók þá aðeins úr jafnvægi og staðan í hálfleik 39-23. Þegar þarna var komið voru skiptingar örar og allir að komast í takt við leikinn.

Ef að drengirnir okkar héldu að Snægrímur ætlaði bara að rúlla yfir og gefast upp þá var um misskilnig að ræða. Snægrímur með Hlyn Hreinsson í broddi fylkingar komu sér inn í leikinn með gríðarlegri baráttu og sóttu stíft á KFÍ. Þarna var Hlynur sjóðandi heitur og skoraði 13 af 19 stigum sínum á einhverjum tveim mínútum og kom Snægrím aftur inn í leikinn og staðan allt í einu 49-45. En strákarnir úr KFÍ stóðust áhlaupið og settu sig aftur inn í leikinn með góðum leik og staðan 61-47 þegar lokaleikhlutinn var eftir.

Í fjórða leikhluta settu Snægríms strákarnir pressu allan völlinn og komu KFÍ strákunum aðeins úr jafnvægi á tímabili, en þeir stóðust prófið og innbyrgðu 12 stiga sigur. Lokatölur 76-64.

Hjá KFÍ voru strákarnir mjög jafnir eins og sést á stigaskorinu og var varnarleikur þeirra mjög fínn og baráttan til fyrirmyndar. Hákon var eins og naut í flagi og reif niður 6 fráköst og var góður í vörninni. Það sama var með Guðna Pál. Hann stjórnaði leiknum á viðkvæmum augnablikum og róaði strákana niður. Leó var hraður og skoraði þegar hann vildi, en þarf að átta sig á að hann er skrefinu fljótari en hann telur. Gautur er í gríðarlegri framför og skilaði góðum leik. Sigmundur átti flottar stoðsendingar og fín skot hjá honum láku af hringnum, en hann þarf að láta sig vaða upp að körfunni, alltaf skrefinu á undan. Ingvar stóð sig mjög vel eins er með Óskar sem meiddist lítlilega en harkaði það af sér og skilaði góðum leik. En að okkar mati var Sævar Vignisson drengur leiksins að þessu sinni. En KFÍ fær stórt og mikið klapp fyrir skemmtilegan leik.

Stig KFÍ: Sævar 15 stig (6 fráköst, 4 stoðs.), Nonni 13 stig (4 fráköst, 2 stoðs.), Leó 11 stig (5 fráköst, 3 stoðs.), Ingvar 11 stig (4 fráköst), Hemmi 9 stig, Óskar 7 stig ( 3 fráköst) Gautur 6 stig (8 fráköst), Sigmundur 2 stig (2 fráköst, 4 stoðs.) Andri 2 stig.

Strákarnir hjá Snægrím eru skemmtilegir og voru sínum bæjarfélögum til sóma. Þeir gáfust aldrei upp og börðusr fram á síðustu sekúndu. Þeir fá þakkir fyrir góðan leik. Hjá þeim voru þeir Hlynur, Snjólfur með góðan leik og eiga þeir eftir að sigra nokkra leikina í vetur. 

Stig Snægríms: Davíð 20 stig, Hlynur 19 stig, Snjólfur 15  stig, Arnar 4 stig, Birgir 3 stig, Davíð 2, Atli 1 stig.

 KFÍ vill þakka þeim sem unnu að leiknum kærlega fyrir. það er oft vanmetið sem vel er gert, en eftir því er tekið hjá félaginu. Deila