Fréttir

4. flokkur Íslandsmeistarar A-liða drengja. Stelpurnar í 3. sæti B-liða

Blak | 21.05.2013 Hið frábæra gerðist að í ár eigum við Íslandsmeistara A-liða í bæði 5. og 4. flokki. Drengjaliðið okkar (með einni stelpu innanborðs) náði sér í Íslandsmeistaratitil í síðustu umferð Íslandsmótsins sem haldin var á Akureyri 20. og 21. apríl. Þetta er í fjórða sinn sem krakkarnir í þessu liði landa Íslandsmeistaratitli. Fyrst var það í 5. flokki C-liða, síðan tvisvar í 5. flokki A-liða og nú í 4. flokki A-liða. Annað lið frá Skelli keppti í deild B-liða stelpna. Það er mjög fjölmenn deild og náðu þær sér í 3. sætið aðeins hársbreidd frá öðru sætinu.

Hér að neðan er stutt ferðasaga og fleiri myndir eru á Facebook síðu Blakfélagsins Skells:
Til stóð að fljúga á mótið á föstudegi en vélin snéri við rétt áður en hún átti að lenda og því var liðinu hent upp í þrjá bílaleigubíla og keyrt fram á nótt. Ferðin gekk vel og allir voru sofnaðir um tvö leytið.

Á laugardegi voru spilaðir leikir milli 8:45 og 13:00. Óhætt er að segja að okkar krökkum hafi gengið vel. Stelpuliðið vann alla leikina nema einn á móti sterku liði Þróttar Nes B. Þær eiga svo einn leik á morgun. Strákarnir (og Auður) unnu alla þrjá leikina sína en tveir þeirra fóru í oddahrinur. Mjög spennandi leikir. Krakkarnir fóru síðan í sund, keilu og bíó - allur pakkinn og mikið fjör og gleði.

Á sunnudeginum var spilað fram að hádegi. Stelpurnar töpuðu sínum leik, en strákarnir unnu Þrótt Nes í æsispennandi oddahrinu. Flugið var tekið til baka og gekk það ljómandi vel.

 Í ferðinni náðu krakkarnir myndum af sér með nokkrum frægum: Hraðfréttagaurunum, Jógvan og Páli Óskari (aftur).  Hinsvegar var Bjarni Ben á flugvellinum í Reykjavík meðan við vorum þar en þau höfðu ekki mikinn áhuga á honum, fannst þau samt eitthvað kannast við gaurinn. Sigmundur Davíð var í flugvélinni með 5. flokki á leiðinni til Neskaupstaðar - enda síðasti spretturinn í kosningabaráttunni. Krakkarnir hefðu því getað náð myndum af sér með næstu forsætis- og fjármálaráðherrum - skil ekkert í áhugaleysi þeirra :-)

Deila