Fréttir

Aðalfundur ársins 2010

Blak | 21.03.2010

Þann 15 mars sl. var aðalfundur Blakfélagsins Skells haldinn í fundarsal Íþróttahússins á Torfnesi á annari hæð.

Dagskrá fundarins var  nokkuð hefðbundin fyrir aðalfund.  Engar breitingar urðu á stjórn félagsins, en nýjir aðilar komu inn í varastjórn, sem skoðunarmenn reikninga og í barna- og unglingaráð.

Á fundinum var lögð fram tillaga að nýjum lögum félagsins.  Forsaga þess máls er að á aðalfundi síðasta árs var samþykkt tillaga um að endurskoða lög félagsins og voru þá þrír aðlilar valdir í það verk.  Tillaga nefndarinnar var samþykkt og má sjá nýju lögin hér á síðu félagsins.

Fram kom í skýrslum formanns og gjaldkera fyrir síðasta ár, að fjárhagsstaða félagsins sé góð, þó svo að rekstrarniðurstaða ársins hafi verið fyrir neðan núllið.  Skýrsla formanns er svo í heild sinni hér fyrir neðan.

Jón Páll Hreinsson formaður HSV stýrði aðalfundinum af röggsemi og festu, og eru honum hér færðar bestu þakkir fyrir. 


Skýrsla formanns:

Góðir félagar.

Á síðasta aðalfundi tók ég þannig til orða, að árið 2008 yrði seint toppað í félaginu, það ár var reyndar alveg frábært ár, en ekki er hægt annað en að árið 2009 hafi slegið það út, að minnsta kosti ef mælt er út frá fjölda spilaðra leikja og árangurs í keppnum.

Starf í yngri flokkum er með sama sniði núna og síðasta vetur.  Æfingar í krakkablaki á vegum félagsins er í tveimur bæjarkjörnum Ísafjarðarbæjar, á Suðureyri, og í báðum íþróttahúsunum á Ísafirði.  Æfingarnar eru ætlaðar krökkum á aldrinum 6 til 14 ára og teljast 35 einstaklingar iðkendur.

Á síðasta ári var loks farið með krakkana í keppnisferðalög og var tekið þátt á þremur mótum.

Fyrsta ferðin var farin til Ólafsvíkur, þar sem 23 krakkar frá okkur kepptu í fimm liðum, á fyrsta, öðru og þriðja stigi.  Óhætt er að segja að krakkarnir hafi staðið sig frábærlega í þessari frumraun sinni á alvöru móti og verið sér sjálfum og okkur öllum til sóma.

Næsta mót sem krakkarnir fóru á var Íslandsmót yngri flokka, sem fram fór á Akureyri.  Sent var eitt lið og keppti það í 4. flokki, stig 5, en þá er spilað venjulegt blak með fullorðinsbolta.  Stóðu krakkarnir sig mjög vel, en þess má geta að 74 lið tóku þátt í þessu móti.

Þriðja mótið sem krakkarnir fóru á á síðasta ári var svo Íslandsmót 4. og 5. flokks og var það haldið í Neskaupstað.  Tvö lið kepptu í hvorum aldurshóp og stóðu sig hreint frábærlega.  Þess má geta að eitt aliðanna, vann alla sína leiki í riðlakeppninni og endaði í úrslitum, þar sem það beið lægri hlut fyrir margfalt reynslumeiri krökkum.  

Full ástæða er því til bjartsýni fyrir seinni hluta Íslandsmótsins, sem fram fer seinna í vetur og almennt á stöðu krakkablaksins hér á landsmælikvarða.

Kvennalið Skells hefur verið þátttakandi á Íslandsmótinu í 3. deild í blaki í vetur og er þetta þriðji veturinn sem það er.  Gríðarlegt keppnisskap og þrjósku þarf til að standa í því að sækja fjölda móta um langan veg, í misjöfnum veðrum og keppa marga leiki á stuttum tíma.  Árangurinn hefur verið nokkuð góður og var liðið um miðjann riðil, af tveimur, eftir fyrstu umferð í haust.

Konurnar okkar láta sér hinsvegar ekki nægja að keppa í þriðju deildinni, heldur eru þær einnig gríðarlega aðsópsmiklar í öldungablakinu. 

Á öldingamótinu 2009, sem haldið var á Egilsstöðum og Seyðisfirði, spiluðu þrjú lið undir merkjum Skells, tvö kvennalið og eitt karlalið.  Að auki félagið stóð félagið að einu karlaliði í samvinnu við Tálknfirðinga og fékk það lið fékk hið virðulega nafn Rassskellur.  Kvennaliðin spiluðu í 6. og 7. deild öldunga kvenna, en karlaliðin spiluðu bæði í 5. deild öldunga karla.  Skemmst er frá því að segja að árangur liðanna var til fyrirmyndar innan vallar sem utan.  Afrakstur mótsins mælt í verðlaunum eru eitt gull og eitt silfur.

Þessu til viðbótar hefur félagið sent karla og kvennalið á nokkur hraðmót, með ágætum árangri og svo má þess að lokum geta að karla og kvennalið félagsins keppti undir merkjum HSV á landsmótinu á Akureyri, síðasta sumar. 

Segja má að innviðir félagsins séu að verða traustari með ári hverju.  Undanfarin ár hefur félagið sent einstaklinga á námskeið til að treysta og efla þekkingu og getu félagsmanna.  Á síðasta ári var fenginn kennari frá Blaksambandinu til að halda dómaranámskeið.  Átta einstaklingar tóku þátt í námskeiðinu og hafa nú öll fengið leyfi til að dæma í 3. deild og neðar.

Á síðasta aðalfundi var nokkrum félagsmönnum falið að endurskoða lög félagsins.  Tók það heldur lengri tíma en til stóð, en er því nú lokið og verður sú vinna lögð í dóm ykkar á eftir.

Fjárhagur félagsins er góður og nokkuð stöðugur, þó svo að sjóðir hafi einhvað rýrnað frá fyrra ári, en gjaldkeri kemur betur inn á það hér á eftir.  Ljóst er að með aukinni þáttöku í keppnum, eykst fjárþörf félagsins en ávinningurinn er gríðarlegur félagslega og í allri hæfni, samspili og íþróttaanda.

Á þessum fallega degi er ég því mjög bjartsýnn á framtíð blaksins á þessu svæði og á áframhaldandi uppbyggingu félagsins.

Deila