Fréttir

Aðalfundurinn

Blak | 27.03.2009 Þann 25. mars s.l. var aðalfundur félagsins haldinn.
Í skýrslum stjórnar kom fram að árið 2008 hafi verið viðburðaríkt í meira lagi.  Sem kunnugt er hélt félagið 33. Öldungamót Blaksambands Íslands síðastliðið vor í Ísafjarðabæ og Bolungarvík.  Um er að ræða eitt stærsta íþróttamót sem haldið hefur verið á Vestfjörðum.  Mótið var gríðarlega góð kynning á íþróttinni og hefur aukið áhuga á blaki hér á svæðinu mikið.  Félagið heldur úti starfi fyrir krakka á aldrinum 6 til 14 ára á Ísafirði og Suðureyri, en framundan er keppnisferðalag á Snæfellsnes.  Í blaki fullorðinna eru æfingar á fullu þessa dagana fyrir næsta öldungamót sem haldið verður á Egilsstöðum og Seyðisfirði.  Væntanlega verða keppendur frá félaginu í þremur liðum á því móti.  Einnig er vert að geta þess að kvennalið frá Skelli hefur í vetur og fyrravetur keppt á Íslandsmótinu í 3. deild í blaki.  Samkvæmt lögum félagsins var kosið um þrjá stjórnarmenn, formann til eins árs og aðra tvo til tveggja ára. Harpa Grímsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og í hennar stað kom inn Gunnar Bjarni Guðmundsson. Ný stjórn er því þannig skipuð;
Sigurður Hreinsson formaður, Gunnar Bjarni Guðmundsson varaformaður,
Þorgerður Karlsdóttir gjaldkeri,
Sólveig Pálsdóttir ritari
Ásdís B. Pálsdóttir meðstjórnandi.
Á fundinum var skipuð nefnd sem falið er að endurskoða lög félagsins m.a. með það að markmiði að tryggja betur stöðu yngriflokkastarfsins.  Mikil þörf er á að auka þáttöku foreldra í því starfi og var því talið nauðsynlegt að endurskoða lög félagsins.  Nefndin á að skila af sér í lok maí. Aðalfundurinn var undir styrkri fundarstjórn Jóns Páls Hreinssonar formanns HSV, og færum við honum bestu þakkir fyrir.  Deila