Fréttir

Afrakstur vetursins - fyrstu Skells krakkarnir til að komast í æfingahópa fyrir unglingalandslið

Blak | 18.06.2014

Fjölmenni var á lokahófi Skells sem haldið var þann 15. maí. Grímur þjálfari var kvaddur en hann hefur gert virkilega góða hluti með Skelli í vetur og margir leikmenn tekið stórstígum framförum undir hans stjórn.

Tilkynnt var um val á bestu og efnilegustu leikmönnum meistaraflokkanna fyrir tímabilið 2013-2014. Hjá meistaraflokki kvenna var Harpa Grímsdóttir best og Jóhanna Jörgensen Steinsdóttir efnilegust. Hjá meistaraflokki karla var Jón Kristinn Helgason bestur og Birkir Eydal efnilegastur.


Gengi yngri flokka félagsins á Íslandsmótum var gott. Skellur lenti í þriðja sæti í 5. flokki A-liða.  4. flokks liðin voru í topp baráttu í sterkum deildum A-liða, stelpurnar enduðu í 2. sæti og strákarnir í 4. sæti. Skellur sigraði Íslandsmót B-liða pilta í 4. flokki og B-liða stúlkna í 3. flokki. 3. flokks lið drengja endaði í 4. sæti í deild A-liða.

Gengi meistaraflokkanna var ekki eins gott, en bæði lið féllu úr 1. deild. Deildirnar voru full sterkar fyrir okkar lið, en þó voru margir leikir spennandi og hvort lið vann einn leik. Yngri flokka leikmenn eru farnir að taka sæti í meistaraflokks liðunum og framtíðin er björt.


Stóru fréttirnar eru þær að í fyrsta sinn hafa leikmenn Skells verið valdir í æfingahópa hjá unglingalandsliðum. Þetta er Kjartan Óli Kristinsson og Hrisiyan Dimitrov í U-17 hóp pilta og Telma Rut Sigurðardóttir í U-17 hóp stúlkna. Við óskum þessum krökkum til hamingju með árangurinn og góðs gengis á æfingunum.

Deila