Fréttir

Besta tímabil Skells til þessa

Blak | 22.05.2013 Afrakstur leiktímabilsins hjá Blakfélaginu Skelli var sérlega góður og hafa aldrei unnist jafn margir titlar.

Fyrst ber að nefna árangur yngri flokka félagsins. 5. flokkur Skells reið á vaðið en krakkarnir urðu Íslandsmeistarar A-liða. Hér má sjá frétt um það. Fjórði flokkur pilta hjá Skelli fylgdi í kjölfarið og varð Íslandsmeistari A-liða pilta, og stelpurnar í 4. flokki náðu 3. sæti B-liða stúlkna. Hér má sjá frétt um það. Einnig stóð 6. flokkur Skells sig vel á Íslandsmótinu, en hjá þeim eru ekki reiknuð sæti heldur fá allir þátttökuverðlaun. Skellur hefur því náð eftirtektarverðum árangri í yngstu flokkunum í blaki á landsvísu. 

Karlalið Skells tók í fyrsta sinn þátt í Íslandsmótinu í blaki og gerðu þeir sér lítið fyrir og sigruðu 3. deildina.  Þeir koma því til með að spila í 2. deild að ári sem þýðir að leiknir verða leikir heima og heiman. Kvennalið Skells náði 3. sæti í 3. deild kvenna sem verður að teljast góður árangur þar sem deildin er mjög jöfn og sterk. Á Íslandsmótinu í blaki er spilað í sex deildum í kvennaflokki.

Karlalið Skells lenti í öðru sæti í 4. deildinni á öldungamóti Blí en það dugir til að komast upp um deild, og spila þeir því í 3. deild að ári þegar mótið verður haldið á Akureyri. Ekki fer eins miklum sögum af árangri kvennaliðsins á öldungamótinu í ár!

Fyrir næsta leiktímabil er búið að semja við Grím Magnússon frá blakbænum Neskaupstað um að taka að sér þjálfun allra flokka Skells. Grímur er einn af þeim sem byrjuðu blakið í Neskaupstað og hlaut hann nýlega gullmerki ÍSÍ fyrir starf sitt innan blakhreyfingarinnar. Hann hefur mikla reynslu sem þjálfari, bæði yngri flokka og meistaraflokka. Deila