Fréttir

Blakveisla fyrir byrjendur

Blak | 20.05.2008

Það voru stórhuga fulltrúar frá Ísafirði sem mættu á Öldungamótið í Garðabæ vorið 2007. Ekki var nóg með að það lið kæmi og sigraði sína deild, heldur var einnig lögð fram umsókn um að fá að halda næsta mót.  Sú umsókn hlaut góðan hljómgrunn og ákveðið var að Öldungamót Blaksambands Íslands 2008 yrði haldið á Ísafirði og nágrenni.

Eins og nærri má geta er mót af þessari stærðargráðu ekkert grín fyrir eins lítið félag og Blakfélagið Skell og erum við félagsmenn afar stoltir yfir því hvernig til tókst.  Keppendur á mótinu hafa eingöngu lýst yfir ánægju sinni með mótshaldið, í okkar eyru.  Gríðarlegur fjöldi fólks mætti á mótið og setti stóran svip á mannlífið á svæðinu yfir keppnishelgina.  Mikill fjöldi heimamanna kom og fylgdist með blakleikjum, þar sem gleðin er drifkrafturinn en aldur og atgervi eru aukaatriði.  Fyrir okkur blakáhugamenn voru þessir keppnisdagar ein stór veisla og stórkostlegt að fá að vera þátttakandi og áhorfandi.

Það er alveg ljóst að mikil vinna liggur að baki mótum af þessari stærðargráðu og hafa félagsmenn, vinir, kunningar, sveitarfélög, ýmis fyrirtæki, íþróttafélög og þið ágætu gestir, gert þetta mót að mjög eftirminnilegum atburði í okkar samfélagi.  Viljum við nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem lögðu sína hönd á plóginn og gerðu þetta mót mögulegt.  Það er ógerningur að telja alla þá aðila upp, en þeir skipta hundruðum.  Fyrir okkur heimamenn er það einnig mikilvægt að vita það, að með samstilltu átaki má vel halda mót af þessari stærðargráðu svo sómi sé af.

Í fyrsta skipti tefldi Blakfélagið Skellur fram þremur liðum, tveimur kvennaliðum og einu karlaliði. Má því segja að sprenging hafi orðið, því að undanfarin ár hefur aðeins eitt kvennalið keppt undir okkar merkjum.  Næsta Öldungamót verður haldið á Egilsstöðum og Seyðisfirði að ári.  Þar ætlum við okkur enn stærri hluti og bæta við amk. einu liði. 

Það er einnig von okkar félagsmanna í Blakfélaginu Skell, að áhugi á íþróttinni hafi aukist við það að fá þetta mót hingað.  Allir þeir sem áhuga hafa á að prufa blak eða að koma og æfa eru hvattir til að koma á kynningaræfingar hjá okkur næstu þriðjudaga kl 19.40. en hugmyndin er að spila út maí.  

Æfingar hefjast svo aftur af fullum krafti í haust og er þá ætlunin að fjölga aldursflokkunum í krakkablakinu enn frekar.  Jafnframt viljum við minna á að þó svo að innanhúsblakið fari í sumafrí bráðlega, er vel hægt að æfa sig heima, einn eða fleiri, nú eða fara í strandblak, sem er stórskemmtilegt afbrigði af blaki.

Vonumst til að sjá sem flesta í blaki í framtíðinni.

 

Blakfélagið Skellur.

Sigurður Hreinsson formaður

 

Deila