Fréttir

Ferð yngri flokka á Íslandsmót

Blak | 11.04.2012 Yngri flokkar Skells fara á seinni hluta Íslandsmótsins í blaki sem haldið verður í Kórnum í Kópavogi dagana 14. og 15. apríl. Alls fara 6 lið á vegum Skells sem er metþátttaka.

Hérna koma upplýsingar um ferðina:

Kostnaður:
Kostnaður á barn er kr. 7000 + 2000 fyrir Skemmtigarðinn í Smáralind, samtals 9000 kr. Vinsamlegast leggið inn á reikning krakkablaksins í síðasta lagi á morgun og hafið nafn barns í skýringum.
Bankareikn. 0156-05-65049
kt.471204-3230

 

Ferðatilhögun:
Föstudagur 13. apríl:

 • Mæting í rútuna er kl. 13:15 utan við Torfnes á Ísafirði. Brottför verður kl. 13:30. Þau sem eru til kl. 13 í skólanum eiga ekki að þurfa að fá neitt frí, vinsamlegast hafið allt klárt daginn áður. Þau hafa með sér nesti að heiman í rútuna.

 • Áætlaður komutími til Reykjavíkur er um 20:30. Við sjáum til hvort við förum í sund. Annars er það snarl og að koma sér fyrir, hitta hina krakkana og fara að sofa.


Laugardagur 14. apríl:

 • Fyrstu leikir hefjast kl. 8 og þeim síðustu lýkur kl. 18. Sum liðin eru búin fyrir kl. 14 og hafa þá tíma til að fara í sund.
 • Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður á mótsstað.
 • 19-21: Farið í Skemmtigarðinn í Smáralind. Hver og einn fær kort að verðmæti 2000 kr. og getur ráðstafað því að vild í skemmtigarðinum.


Sunnudagur 15. apríl

 • Fyrstu leikir hefjast kl. 8:45 og síðasti leikur er búinn um 15. Gert er ráð fyrir því að það verði verðlaunaafhending fljótlega eftir það.
 • Morgunverður og hádegisverður á mótsstað.
 • Stoppað verður fyrir kvöldverð í Borgarnesi - þar sem búið er að panta pizza-hlaðborð.
 • Áætluð koma nálægt miðnætti til Ísafjarðar, en auðvitað er erfitt að vita nákvæmlega hvenær við komum, þau verða í sambandi við foreldra. Enginn má klikka á að mæta í skólann á réttum tíma daginn eftir - svo má bara leggja sig eftir að skóla lýkur.


Það sem þarf að hafa með:

 • Íþróttaskór
 • Hnéhlífar
 • HSV - upphitunargalli (Ef einhver á ekki gallann má athuga með hann í Legg og Skel, Skellur niðurgreiðir dálítið. Annars bara vera með einhvern íþróttagalla)
 • Vatnsbrúsi
 • Sundföt og handklæði
 • Hollt nesti fyrir föstudaginn í rútunni. Sælgæti og snakk ekki leyft. Samlokur, kalt kjöt, ávextir og grænmeti. Vatn eða safar.
 • Það hefur komið mjög vel út að fá eitthvað smá bakkelsi eða snarl með fyrir hópinn. Þeir sem geta skellt í t.d. skúffuköku, möffins, pizzasnúða eða skinkuhorn til að hafa með láti Hörpu eða Þorgerði vita. Það þurfa ekki allir að koma með svoleiðis - ef einhverjir komu ekki með bakkelsi síðast en hafa tök á því núna væri það mjög gott. Ef einhverjir geta útvegað eitthvað úr búðum, t.d. ávexti eða kringlur er það líka mjög fínt.
 • Dýna, sem ekki er mjög fyrirferðarmikil
 • Svefnpoki
 • Koddi
 • Náttföt
 • Tannbursti og snyrtidót
 • Það má hafa með síma og litlar lófatölvur, t.d. ipod, en þau bera ábyrgð á svoleiðis tækjum sjálf.
Ekki láta krakkana/unglingana taka með pening aukalega. Þetta verður nammilaus keppnisferð, en við verðum væntanlega með eitthvað kökukyns fyrir alla. Við verðum eins og venjulega með nesti í kössum sem þau geta gengið í á milli leikja og í rútunni á leiðinni heim - það verður nóg að borða fyrir alla.


Fararstjórar verða:

Petra Dröfn Guðmundsdóttir (s:899-0361) og Svava Rán Valgeirsdóttir (s: 895-1780) frá Suðureyri og Sigurður Jón Hreinsson (s: 8656442) og Benni pabbi Auðar frá Ísafirði. Þjálfarar verða Harpa (s. 8430413), Sólveig (8490108) og Þorgerður (8999562).

 

Kveðja frá yngriflokkaráði Skells.

Deila