Fréttir

Frábæru móti lokið

Blak | 26.11.2012 Um helgina, 24. og 25. nóvember var haldin önnur umferð Íslandsmótsins í blaki 4. flokks á Ísafirði. Blakfélagið Skellur sá um allt utanumhald.  Á mótinu voru um 130 manns, leikmenn, þjálfarar og fararstjórar. Níu félög sendu samtals 23 lið á mótið. Óhætt er að segja að allt hafi gengið að óskum. Veðurguðirnir voru okkur hliðhollir og komust allir á mótið og til síns heima á réttum tíma, sem í raun má teljast merkilegt miðað við veðurfar í nóvember.

Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsmót yngri flokka í blaki er haldið á Vestfjörðum, en boðið er upp á æfingar yngri flokka í blaki á Þingeyri, Suðureyri og Ísafirði. Æfingar fyrir krakka og unglinga hófust í þessum bæjum veturinn 2007-2008 þegar öldungamót var haldið á Ísafirði. Þá byrjuðu einnig æfingar hjá karlaliði Skells.  Í mörg ár fyrir þann tíma var einungis eitt kvennalið að æfa blak undir merkjum Skells á Ísafirði, en þó er löng hefð fyrir öldungablaki á Ísafirði og varð karlalið frá Ísafirði fyrstu Íslandsmeistarar öldunga í blaki á 8. áratugnum.

Mótið um helgina gekk í alla staði vel. Laugardagurinn var langur og strangur og spilað var frá kl. 8:30 til 17:30. Liðin gistu í skólastofum í Menntaskólanum og Hugljúf í mötuneyti MÍ sá um hádegis- og kvöldverð fyrir allan hópinn á laugardeginum. Höfðu margir á orði að þetta væri besti matur sem þeir höfðu fengið á íþróttamóti. Kvöldvaka var haldin í Gryfju MÍ á laugardagskvöldinu og hélt Benni Sig utan um hana til að byrja með og svo var diskótek. Á sunnudeginum var spilað frá kl. 8:30 til 10:45 og síðan var pizzuveisla frá Hamraborg og verðlaunaafhending. Allir þátttakendur fengu að gjöf lítinn platta úr plexígleri með mynd af Vestfjörðum

Stemmningin á mótinu var virkilega góð og krakkarnir skemmtu sér greinilega vel. Margir voru að koma til Ísafjarðar í fyrsta sinn. Leikirnir voru margir spennandi og blakið glæsilegt á köflum. Skellur er með tvö lið í Íslandsmóti 4. flokks:  Skellur A sem spilar í deild með A-liðum pilta og Skellur 1 sem spilar í deild B-liða stúlkna.  Bæði liðin stóðu sig gríðarlega vel, en þetta er í fyrsta sinn sem þau fá að keppa á heimavelli. Á mótinu töldust sumir leikir til Íslandsmótsins en aðrir leikir bara til verðlauna á þessu móti.  Skellur A sigraði sinn riðil á mótinu og er líka í efsta sætinu á Íslandsmótinu.  Skellur 1 lenti í 2. sæti í sinni deild á þessu móti. Deildin sem þau keppa í er stærsta deildin með 10 liðum og er Skellur 1 meðal efstu liða á Íslandsmótinu og mun lenda í efri riðli á lokamótinu á Akureyri í apríl og keppa þar til verðlauna. Skellur sendi einnig eitt lið sem gestalið í deild C-liða og vann það alla sína leiki, enda um sterka leikmenn úr 5. flokki að ræða. Höfrungur var líka með gestalið í deild C-liða sem stóð sig mjög vel.

Mikil vinna var í kringum mótið. Foreldrar sáu um morgunverð og skipulögðu mötuneytismál, stóðu vaktir í Menntaskólanum, héldu utan um kaffisölu á mótinu og skráðu inn úrslit frá leikjum jafnóðum. Meistaraflokks leikmenn dæmdu alla leikina á mótinu. Mótsstjórnin, sem skipuð var yngri flokka þjálfurum félagsins, sá um að setja upp mótið og skipuleggja. Öllum þeim sem lögðu hönd á plóg til að láta þetta mót ganga upp eru færðar bestu þakkir. Einnig eru styrktaraðilum mótsins færðar þakkir, en Íslandssaga styrkti okkur með því að gefa úrvals fisk í fiskmáltíð og Hamraborg styrkti okkur með pizzum. Deila