Fréttir

Fyrsta yngri flokka mót vetrarins. Fjórði flokkur í Mosó.

Blak | 01.10.2012 Fjórði flokkur Skells tók þátt í fyrstu umferð Íslandsmótsins í Mosfellsbæ um síðustu helgi (29.-30. sept). Skemmst er frá því að segja að ferðin gekk vel í alla staði. Annað Skellsliðið er í fyrsta sæti meðal A-liða drengja eftir mótið og hitt liðið er í 3.-4. sæti meðal B-liða stúlkna.

Liðið Skellur A spilaði í deild A-liða drengja og var það skipað þeim Birki, Bjarna Pétri, Kjartani Óla, Ágústi og Auði Líf. Þau gerðu sér lítið fyrir og unnu alla leikina sína á laugardeginum en það voru leikirnir sem teljast til stiga á Íslandsmótinu. Liðið er skipað miklum reynsluboltum og síðasti leikurinn þeirra þennan daginn var algjör stjörnuleikur þar sem þau sýndu öll sínar bestu hliðar á móti Aftureldingu sem hefur verið einn helsti keppinautur þeirra síðustu árin. Á sunnudeginum spiluðu þau síðan undanúrslitaleik sem gilti bara á þessu móti við liðið sem lenti í 4. sæti eftir laugardaginn, Þrótt Nes. Sá leikur tapaðist og var ekki laust við að okkar krakkar stressuðust svolítið upp þegar Þróttarliðið mætti ákveðið til leiks og sýndu virkilega góða takta. Þau spiluðu um bronsið á Mosó-mótinu við Stjörnuna og unnu þann leik.  Þau enduðu því í þriðja sæti á þessu móti en með flest stig - töpuðu bara röngum leik og Þróttur Nes vann mótið. Þau eru samt sem áður í efsta sæti Íslandsmótsins eftir þessa fyrstu umferð, en það er ljóst að það á eftir að kosta baráttu og miklar æfingar að halda því. Öll liðin eru sterk og taka miklum framförum - ekki síst Þróttur Nes sem eiga líklega eftir að reynast ansi erfiðir á næstu mótum. Það verður spennandi að fylgjast með þessari deild á Ísafirði í nóvember.

Liðið Skellur 1 spilaði í deild B-liða stúlkna og var það skipað þeim Birtu Rós, Guðrúnu Ósk, Ólínu, Dísu og Bensa. Í þeirri deild eru 10 lið og var spilað í tveimur riðlum fyrri daginn. Þau unnu alla leikina nema einn á móti Þrótti Nes sem tapaðist í oddahrinu. Þetta voru leikirnir sem teljast til stiga á Íslandsmótinu. Þau eru í 3. eða 4. sæti á Íslandsmótinu eftir þetta mót, en liðið sem varð í öðru sæti í hinum riðlinum, Fylkir, er með jafnmörg stig og sama hrinuhlutfall.  Á sunnudeginum voru spiluð einföld úrslit við hinn riðilinn sem giltu sem úrslit á þessu móti og þar töpuðu okkar krakkar eins naumlega og hægt er, 15-17 í oddahrinu og enduðu því í 4. sæti á mótinu. Ef þau verða dugleg að æfa í vetur ættu þau að vera í hörkubaráttu um verðlaun í þessari deild á Íslandsmótinu. Þau eru orðin mjög hreyfanleg og krakkar sem voru ekki mikið fyrir að skutla sér fyrir einhverju síðan láu nú hvert um annað þvert á gólfinu í mikilli baráttu við að bjarga öllum boltum. Alveg til fyrirmyndar.

Á laugardagskvöldinu var kvöldvaka þar sem var mikið fjör - leikir og diskó. Hinum Norðfirska þjálfara Skells finnst sérlega gaman að sjá hvað Austfirðingarnir og Vestfirðingarnir ná vel saman utan vallar:-) Deila