Fréttir

Góður árangur í vetur hjá liðum Skells

Blak | 17.05.2015

Óhætt er að segja að blakarar í Skelli á öllum aldri hafi staðið sig vel í vetur. Hérna er yfirlit yfir árangurinn á Íslandsmótunum.

5. flokkur Íslandsmeistarar

Í 5. flokki eru 10 og 11 ára krakkar og keppt var í blönduðum liðum. Á Íslandsmótinu tóku 23 lið þátt í A, B og C deildum, þar sem A deildin er sterkust. Skellur var með tvö lið í A-deildinni. Liðið Skellur 1 varð Íslandsmeistari og vann alla sína leiki. Úrslitaleikurinn við A-lið Þróttar Nes var æsispennandi, en Skellur hafði að lokum sigur í oddahrinu. Skellur 2 náði 3. sætinu og því var árangur 5. flokks alveg hreint magnaður.

4. flokkur í 3. sæti hjá bæði stelpum og strákum

Bæði lið kepptu í A-deildum Íslandsmótsins.

4. flokks lið kvenna var skipað fjórum Súgfirðingum og einum Dýrfirðingi. Liðið var feiknasterkt, enda skipað duglegum stelpum sem margar hafa æft lengi. Keppt var í tveimur riðlum og náðu stelpurnar öðru sæti í sínum riðli á eftir Þrótti Nes B. Þær spiluðu undanúrslitaleik við Þrótt Nes A sem varð æsispennandi en tapaðist 2-1 í oddahrinu. Leikurinn um bronsið vannst auðveldlega og varð Skellur því í 3. sæti á eftir tveimur liðum frá Þrótti Nes.

4. flokks lið drengja var skipað þremur drengjum og tveimur stúlkum. Leikmenn eru frá Suðureyri, Þingeyri, Dýrafirði og Ísafirði. Liðið náði 3. sæti eins og stelpurnar og tapaði aðeins tveimur leikjum. HK var með sterkasta liðið í þessum flokki en Þróttur Nes varð í öðru sæti.

3. flokkur í 3. sæti hjá bæði stelpum og strákum

Í 3. flokki eru þrír árgangar, unglingar fædd 1998-2000. Bæði stelpu- og strákaliðin kepptu í A-deild Íslandsmótsins.

Hjá stelpunum eru tvö lið langsterkust en það eru Þróttur Nes og HK. Margir af leikmönnum þeirra liða spila í úrvalsdeildinni með meistaraflokki. Það var mjög góður árangur hjá Skelli að ná 3. sætinu og unnu þær alla leiki sem þær áttu einhvern möguleika á að vinna. Leikmenn Skells eru flestar á yngsta árinu í 3. flokki og einnig spiluðu leikmenn úr 4. flokki með liðinu.

Strákarnir náðu líka 3. sæti í sinni deild en þar munaði litlu á fyrstu þremur liðunum. Aðeins munaði einu stigi á milli sæta í 1.-3. sæti. Eins og hjá stelpunum er Skells liðið mjög ungt og þessir strákar eiga því framtíðina fyrir sér.

2. flokkur sameiginlegur hjá Vest- og Austfirðingum

Í vetur hafa verið búin til sameiginleg lið Vestfirðinga og Austfirðinga í 2. flokki kvenna. Á Íslandsmótinu krækti þetta lið í 2. sætið.

Meistaraflokkur Kvenna vann alla sína leiki í 2. deild Íslandsmótsins í vetur

Meistaraflokkur kvk í Skelli gerði sér lítið fyrir og vann alla leiki sína á Íslandsmótinu í vetur. Liðið endaði því í toppsæti 2. deildar og leikur í 1. deild að ári (Úrvalsdeild er þar fyrir ofan). Liðið er blanda af gamalreyndum refum og ungum og frískum stelpum. Ljóst er að erfitt verkefni bíður liðsins en 1. deildin er mjög sterk. Þar eru leiknir leikir af fullri lengd upp í þrjár hrinur unnar og leikið heima og að heiman. En allar eru klárar í þetta verkefni og ætla að leggja sig 100 % fram.

Meistaraflokkur kk hafnaði í 2. sæti 2. deildar

Hjá körlunum hafa orðið kynslóðaskipti en í síðasta móti 2. deildar voru það fjórir 14-15 ára strákar sem voru meginstoðin í liðinu. Þessir ungu strákar vöktu mikla athygli enda eru leikmenn í 2. deild kk flestir um 20-30 árum eldri en þeir. Þessi árangur nægði til að liðinu býðst að spila í 1. deild komandi vetur og stefnir í að það verði gert  með ungu strákana sem helsta drifkraftinn.

Öldungaliðin bæði í 4. sæti í sínum deildum

Öldungalið kvk hjá Skelli spilaði í 4. deild af 13 deildum sem eru á Öldungamóti kvk. Markmiðið var að halda sætinu í deildinni og það tókst með því að ná 4. sæti, með jafnmörg stig og liðið í 3. sæti en lakara hrinuhlutfall. Það munaði því litlu að Skellur kæmust á verðlaunapall

Öldungalið karla var einnig í 4. deild, en hjá körlunum eru 6 deildir samtals. Liðið endaði í 4. sæti eins og konurnar en markmiðið hjá þeim var einnig að halda sér uppi í deildinni.

Deila