Fréttir

Karlalið Skells ósigrað

Blak | 30.10.2012 Mótið um helgina gekk vel fyrir sig. Margir spennandi leikir voru spilaðir og réðust úrslitin í oddahrinu í fjölmörgum leikjum. Einhver seinkun varð á leikjum vegna þessa, en ekkert sem skipti miklu máli.  Margir kíktu við og horfðu á leiki og lið Skells þakka kærlega fyrir stuðninginn á áhorfendapöllunum. Yngri flokkar Skells sáu um kaffisöluna með miklum myndarbrag og er kaffinefndinni þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf, en nefndina skipuðu þær Anna Kata, Bergþóra og Ingunn.

Karlalið Skells gerði sér lítið fyrir og vann alla sína leiki, þar af tvo í oddahrinu. Ómögulegt var að vita fyrirfram hvernig liðið stæði þar sem þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í 3. deild karla á Íslandi. Allir leikmenn stóðu sig vel en nýliðinn Karol Mariusz Maliszewski átti gríðarlega gott mót.  Hann er mikill styrkur fyrir liðið, enda reyndur leikmaður frá Póllandi, sem nú býr á Suðureyri.

Kvennalið Skells stóð í mikilli baráttu enda er 3. deild kvenna mjög sterk og jöfn. Liðið vann þrjá leiki en tapaði þremur og er í 4. sæti eftir þessa fyrstu umferð. Margir leikjanna einkenndust af löngum lotum þar sem varnarleikur margra liðanna er stórgóður og hvert smassið af öðru hirt upp og boltinn gat farið 10-15 sinnum yfir netið fram og til baka. Þá fer úthaldið að skipta máli sem og einbeitingin. Liðið átti mjög góða spretti og ætlar sér að gera enn betur á næsta móti.

Hinn nýi ljósmyndari liðsins hann Maik tók margar skemmtilegar myndir og hafa nokkrar þeirra verið settar á Facebook síðu Skells. Einnig tók Halldór Sveinbjörnsson hjá bb flottar myndir og eru þær komnar undir myndir.
Deila