Bikarmót yngri flokka í blaki var haldið á Akureyri um síðustu helgi 11.-13. febrúar. Mótið var fyrir tvo aldurshópa, undir 16 ára og undir 14 ára.
Að þessu sinni sendi Vestri 13 leikmenn á mótið, eitt lið U16 stráka, einn stakan U14 strák sem spilaði með blönduðu liði Þróttar Reykjavík/HK og þrjár U14 stelpur sem spiluðu með blönduðu liði Þróttur Nes/HK/Vestra.
Lítið hefur verið um yngriflokka mót undanfarin misseri og var mótið því afar ánægjuleg tilbreyting fyrir krakkana.
Stærstu fréttirnar af þessu móti eru af U16 strákaliðinu okkar þar sem 7 lið voru skráð til leiks. Þar var toppbaráttan æsispennandi, svo ekki sé meira sagt. Toppliðin þrjú, Vestri, Þróttur Nes og HK unnu öll alla sína leiki nema einn. HK vann Þrótt Nes 2-0 (25-10 og 26-24), Þróttur Nes vann Vestra 2-1 (17-25, 25-11 og 19-17) og því var ljóst að allt var opið í toppbaráttunni fyrir síðasta leik Vestra. Með baráttu leik Vestrastráka tókst að landa 2-0 sigri á móti HK (27-25 og 25-23) og var því ljóst að Vestri hafði tryggt sér bikarmeistaratitilinn. Lokastaðan var Vestri með 19 stig, HK með 18 stig og Þróttur Nes með 17 stig.
Lið Vestra eru því bikarmeistarar drengja í blaki í flokki U16 árið 2022.
Við óskum drengjunum til hamingju með þennan frábæra sigur. Það er greinilegt að framtíðin er björt í blakinu hjá Vestra.
Deila