Fréttir

Kórinn 10-11/11

Blak | 16.11.2012 Helgina 10.-11. nóvember fór fram fyrri hlutinn í Íslandsmótinu í blaki, í 3.,5. og 6.flokki. Mótið fór fram í íþróttahúsinu í Kórnum í Kópavogi. Blakfélagið Skellur mætti að sjálfsögðu á svæðið með vaska keppendur, eitt lið í 6 flokki og annað í 5 flokki. Krakkar á þessum aldri spila 4 manna blak og voru tveir skiptimenn í öðru liðinu en vegna veikinda var enginn til skiptanna í hinu. Bæði lið voru blönduð stelpum og strákum, en spiluðu sitt á hvað í strákadeild og stelpudeild. En ekki svo að skilja að það skipti miklu máli á þessum aldri.
Það verður nú ekki sagt að veðrið hafi verið okkur hliðhollt, svona til að byrja með a.m.k. Planið fyrir helgina var á þann veg að flogið yrði suður með seinna flugi á föstudegi, byrjað að spila á laugardagsmorgni. Spilað áfram á sunnudegi og flogið heim með seinna flugi. Föstudagurinn gaf engan grið fyrir flug og ekki var talið ráðlegt að fara akandi í því veðri sem þá var skollið á. Plan D var laugardagsflugvélin og gekk það upp og vorum við komin í borgina um kl tvö.
Sem betur fer var yfirþjálfari Skells búinn að vera í stöðugu sambandi við mótshaldara og var búið að koma málum þannig fyrir að liðin okkar tvö gátu spilað alla þá leiki, sem þau áttu þennan dag, þarna síðdegis. Eftir nokkurra mínútna pásu eftir ferðalagið var arkað inn á keppnisvellina og spilað.
Það sást strax að krakkarnir okkar voru ekki komnir þessa leið til þess að tapa. Enda lauk keppni laugardagsins þannig að allar hrinur unnust, eftir þrjá leiki hjá 6. flokki og tvo leiki hjá 5. flokki.
Þá var skutlast í Hörðuvallaskóla, sem er þarna rétt hjá, og fengin skólastofa til að gista í, dýnur og svefnpokar gerðir klárir. Menn drifu sig í mat í mötuneyti skólans, slöppuðu af í örlitla stund og svo var farið í bíó. Þegar því lauk, má eiginlega segja að flestir hafi fagnað því að komast í pokana.
Morguninn eftir hélt fjörið áfram. Bæði lið voru mætt í íþróttahúsið um kl 9. Bæði lið spiluðu tvo leiki og hjá báðum liðum fór fyrri leikurinn í oddahrinu og bæði lið unnu seinni leikinn 2-0. Eini munurinn var sá að 6. flokkur vann næst síðasta leikinn og þar með alla sína leiki á mótinu, á meðan 5. flokkur tapaði þessum eina leik á mótinu.
Bæði lið standa því mjög vel núna eftir fyrra mótið á Íslandsmótinu, þau eru bæði í efsta sæti í sínum deildum.
Ferðalagið heim var svo eins og best verður á kosið, rjómablíða alla leiðina. Lent á Ísafjarðarflugvelli um hálf sex á sunndegi. Undirritaður var svo heppinn að fá að vera fararstjóri í ferðinni. Vil ég nota tækifærið og þakka fyrir frábæra ferð og skemmtilegan félagsskap. Keppendur stóðu sig svo sannarlega vel og voru sér og félaginu til mikils sóma jafnt innan vallar sem utan.
Deila