Fréttir

Markmiðum náð á Mosöld :-)

Blak | 21.05.2010

Öldungamótið í Mosfellsbæ var haldið síðastliðna helgi og var hið stærsta frá upphafi með yfir 120 liðum. Blakfélagið Skellur sendi eitt kvenna- og eitt karlalið á mótið og er skemmst frá því að segja að bæði lið náðu því markmiði sínu að halda sér í deildinni. 

 

Karlaliðið spilaði í 4. deild en alls voru sex karladeildir á mótinu. Liðið endaði í 5. sæti af sjö liðum. Liðinu hefur farið mikið fram frá því á öldungamótinu á Ísafirði fyrir tveimur árum, en þá voru Ísfirðingar með karlalið í fyrsta skiptið í mörg ár. Síðasti leikurinn var við Óðinn-Skauta, en það lið verður að teljast mjög reynslumikið og er meðalaldurinn sennilega meira en 20 árum hærri en hjá okkar mönnum. Einn liðsmanna norðlendinganna kom til okkar fyrir leikinn og spurði hvort ekki hefðu einhverjir af okkar mönnum spilað með Ísafjarðarliðinu sem varð íslandsmeistari á fyrsta öldungamótinu í blaki árið 1976. Tveir úr Óðni-Skautum höfðu spilað gegn Ísfirðingum á því móti (og mætt á öll 35 öldungamótin). Okkar menn urðu að hryggja þá með að flestir í liðinu núna hefðu ennþá verið með bleiu þá. Óðinn-Skautar unnu síðan leikinn - bara á reynslunni, en okkar menn eiga framtíðina fyrir sér og taka þá bara næst - nú eða þarnæst.

 

Kvennaliðið spilaði í 5. deild af tíu deildum. Þær byrjuðu vel og unnu þrjá leiki af fjórum fyrstu leikjunum, en síðustu tveir leikirnir töpuðust 2-0. Deildin var gífurlega jöfn og spennandi. Þegar Skellur fóru í síðasta leikinn var staðan þannig að þær gætu átt á hættu að falla ef leikurinn tapaðist, en gætu náð 2. sæti ef hann ynnist og farið upp um deild.  Því miður töpuðu Skellur leiknum, en náðu samt 5. sætinu og héldust uppi í deildinni. Kvennaliðið okkar spilaði mjög vel á köflum, en átti líka slæma kafla - svona eins og gengur í íþróttum.

 

Mótið var skemmtilegt og umgjörðin góð. Lokahófið var haldið á laugardagskvöldinu og þar var tilkynnt að næsta mót verður í Vestmannaeyjum.


Myndir frá mótinu eru komnar inn á myndasíðuna 

Deila