Fréttir

ÖLDUNGAMÓT 2009

Blak | 28.04.2009

Þá er komið að því.  Stundin sem við höfum beðið eftir frá því á síðasta öldungamóti á Ísafirði í fyrra. Skellur er á leið á öldungamót á Seyðisfirði og Egilsstöðum - Húrraaaa!

 

Flogið verður í hádeginu á morgun miðvikudegi, millilent í Reykjavík og lent á Egilsstöðum um klukkan 15. Við förum með tvö kvennalið og tvö karlalið héðan frá Vestfjörðum. Þar sem Tálknfirðingarnir voru ekki með nægan mannskap í eitt lið og við ekki í tvö lið, var ákveðið að blanda saman liðunum. Karlarnir fara því með eitt Skells-lið sem er skipað Ísfirðingum og Súgfirðingum og eitt lið sem fékk hið lýsandi nafn "Rassskellur".  Í því eru fjórir Tálknfirðingar og þrír Ísfirðingar.  Konurnar fara með liðin Skellur A og Skellur B sem spila í 6. og 7. deild. Í liðunum eru Ísfirðingar, Þingeyringar, Súgfirðingur og Tálknfirðingur - góð blanda!  Þar sem Tálknfirðingar og norðanverðir Vestfirðingar hafa ekki geta hist hafa tvö liðanna aldrei æft saman, en því verður reddað á morgun. Eftir búðarferðir á Egilsstöðum verður farið í sveita-íþróttahúsið Brúarás og tekið á því á generalprufu fyrir mótið sjálft, sem hefst með leik karlaliðs Skells klukkan 8 á fimmtudagsmorgunn.

 

Stefnan er sett hátt - á verðlaunasæti hjá öllum liðum og helst að komast upp um deild. Það er hins vegar mjög erfitt að átta sig á 5. deild karla þar sem liðin okkar spila.  Í henni virðast vera nokkur "öðlinga og ljúflingalið", en í þetta sinn er ekki spilað í sér öðlinga- og ljúflingadeildum hjá körlunum. Þarna gætu því leynst gamlar kempur á fimmtugs- sextugs og sjötugsaldri sem verða harðar í horn að taka, en hin ungu og fersku lið Skells og Rassskells láta það ekkert á sig fá.

 

Skellsliðin eru því ekki að fara á mótið bara til að vera með og hafa gaman af þessu, heldur til að vinna og hafa gaman af! En öldungamót snúast ekki bara um það sem gerist á vellinum heldur er þetta mikil skemmtun allan tímann.  Ásdís, Seyðfirðingur liðsins, reddaði tveimur einbýlishúsum fyrir liðin á Seyðis og verða karlarnir í öðru húsinu og konurnar í hinu, eins og vera ber. Við konurnar væntum þó þess að vera boðnar yfir í karlahúsið og sjáum jafnvel fyrir okkur að hetjurnar okkar bjóði upp á heilgrillað hreindýr eða eitthvað þess háttar. Á föstudagskvöldinu verður karaoke keppni sem við höfum hugsað okkur að vinna líka, og það kvöld verður þema mótsins tekið með stæl, en það er 80's.  Best að hafa sem fæst orð um það, láta myndirnar tala eftir mót.  Lokahófið verður á Seyðisfirði á laugardagskvöldinu og allir öldungablakarar vita að það er ótrúleg stemmning á þessum lokahófum - eitthvað sem maður upplifir hvergi annarsstaðar.

 

Svo er bara spurning hvað það á eftir að taka langan tíma að jafna sig eftir helgina, andlega og líkamlega - en það er seinni tima vandamál...


Hægt er að fylgjast með úrslitum leikja á mótinu á www.blak.is

Deila